Það er ekki að spyrja að því. Eins og það er nú gott að fara til útlanda þá er nú ansi hreint gott að koma heim. Jafnvel þó það bíði manns ógnarvinna við að ganga frá öllu góssinu sem maður sankar að sér.
Hvað skal segja um Danmerkur/Svíþjóðarferðina? Þetta var sennilega undarlegasta utanlandsferð sem ég hef farið í. Það sem ber hæst er að við náðum okkur öll þrjú í pest og vorum í misjöfnu ástandi allt fríið, hins vegar að veðrið hefði mátt leika betur við okkur. En jákvæðu punktarnir voru margir og stórir, þó svo þetta standi upp úr. Þar má telja;
– Það var óskaplega indæll staðurinn sem við gistum á í Danmörku. Mig minnir að ég hafi áður vísað á hann, en hann fær að minnsta kosti að fljóta aftur með. Ótrúlega fallegur staður, mjög rómantískt umhverfi og hefði bara getað verið betra ef veðrið hefði verið ögn hagstæðara. Ekki spilltu dýr bæjarins fyrir (þó svo Herra Geit hafi hvergi verið sjáanlegur), meðal annars voru þarna skemmtilegustu rollur sem ég hef séð, alætur miklar, svo minnti á Bakkaköttinn.
– Bærinn sem við gistum í fyrstu nóttina á Fjóni var líka mjög skemmtilegur, ekta lítill bær og hótelið gamalt og mikið af gömlum húsgögnum þar, meðal annars forláta skrifborð á herberginu okkar. Ekki spillti „talandi“ páfagaukurinn í anddyrinu fyrir.
– Ýmis aktivitet í Danmörku voru skemmtileg, ég hugsa að ég hafi oft á tíðum skemmt mér betur en dóttir mín. Mér fannst til dæmis voða gaman að koma í Legoland. Við fórum líka í skemmtilegan dýragarð, Givskud Zoo, en þar var veðrið aðeins að stríða okkur. Eins fórum við í Randers Regnskov, sem ég gerði reyndar fyrir þremur árum, það var ekki síðra núna.
– Verslunarferðir standa alltaf fyrir sínu. Að þessu sinni keypti ég fjórar danskar myndir á DVD, Zappa (gömul og góð – BA ritgerðin mín var um bókina), Rembrandt, Regel Nr 1 og Humørkortstativsælgerens søn. Bíð spennt eftir að geta hafið danska kvikmyndadaga aftur. Ég keypti líka geisladiska (til dæmis Shu-bi-dua, til að geta hlustað á Kylling og soft-ice) og föt á mig og stúfuna. Sóley fékk meðal annars gúmmístígvél með Bamse og Kylling. Mikil gleði yfir því.
– Sveitasælan í Blekinge er góð.
Ævintýrið náði samt hámarki þegar við komum heim, því þá fórum við á Metallicu. Gleði, gleði. Þó að þeir kæmu tvisvar á ári hingað myndi ég stefna á alla tónleika. Þeir rokka feitast.