Áthelgin mikla

Ég geri orðið fátt annað en að skrifa átsögur hér inn, einhverjir sjá mig eflaust margfalda fyrir sér 😉 En það var enn eitt matarboðið á föstudaginn, þá komu Helgi og Katrín frænka þeirra bræðra í mat. Eins og venjulega þegar þeir matbræður koma saman þá var vel veitt. Við fengum okkur rjómahvítlaukshumar í forrétt, tekílalegið fajitas í aðalrétt (smakkast betur en það hljómar) og ferska ávexti með sabayonsósu í eftirrétt. Allt saman verulega gott.

Á laugardaginn fórum við, eins og áður var auglýst, á Fiskidaginn mikla. Það var mjög gaman, við vorum snemma í því og komumst því að í mat án teljandi erfiðleika. Sóley sá brot af Brúðubílnum og skemmti sér hið besta en ég missti af aðalatriðinu (sem þó var endurtekið mörgum sinnum) sem var Fiskidagslagið. Svo fórum á kaffihúsið Sogn og fengum okkur eftirrétt 😉 Því miður gleymdi ég að taka berjadall svo ég náði ekkert að fara í Hrísamóinn og kíkja á ber (það mætti halda að mér þætti gaman að tína ber, því fer auðvitað fjarri…)

Í gær var svo sem frekar lítið átsukk. Nema við vorum í eftirafmælisveislu að borða afganga. Ég fór líka í hörkugöngutúr í gærkvöld, yfir gömlu brýrnar í yndislegu veðri, svo þetta slapp allt saman til.

Í dag byrjaði Sóley í aðlögun. Það gekk vel (kannski ekki við öðru að búast, stutt heimsókn og mamma með…), hún bað Ráðhildi til dæmis að halda á sér, til að skoða nánar spiladós uppi á vegg. Hún var líka algjört gæðablóð við drenginn sem var líka í aðlögun, faðmaði hann og knúsaði í bak og fyrir, fékk svolítið knús tilbaka en mest var hann vandræðalegur yfir öllum þessum atlotum.