Giftingarlistinn góði frá því í MA – sennilega seinna en listinn yfir það sem prýðir góðan mann, staðsetjum hann í 3. bekk eða þar um bil. Hann á tvo einstaklinga sameiginlega með elskhugalistanum mínum, m.ö.o. eru þeir órjúfanlegur þáttur af mínu lífi. Annars vegar er það George Michael (þetta var nb áður en hann kom úr skápnum svo það var von…) og hins vegar Friðrik minn Danaprins, sem ég er víst endanlega búin að missa af 🙂 Þetta þarfnast engrar ritskoðunar, ég er þeim eilíflega trygg og trú (ef þeir fyrirgefa mér að gefast upp á að bíða og giftast öðrum…)
Svo versnar öllu meira í því. Eduardo Ponti (who?) var ofarlega á blaði. Aðallega vegna útlitsins, ég sá mynd af honum í blaði og fannst hann eitthvað voðalega sjarmerandi – til útskýringar er þetta sonur Sophiu Loren og er líklegast, eins og bekkjarsystur mínar vildu meina, óttalegur mömmustrákur. Ég er alla vega ekki svag fyrir ítölskum karlmönnum lengur svo ég sé ekkert eftir að hafa ekki reynt að elta hann uppi. Næsti maður á lista er annar hommi (og eins og George Michael ekki kominn úr skápnum á þessum tíma), Bergþór Pálsson. Það var bara einhver sjarmi við þetta breiða bros. Ég er alveg búin að fyrirgefa honum að finna sér góðan mann. Síðastur á listanum (og hérna kemur það sem ætti að vera ritskoðað) var Júlíus nokkur. Hann vann það sér eitt til frægðar að vera sonur Heiðars snyrtis og það var ástæðan fyrir því að hann komst á blað. Þetta var á þeim árum sem mér fannst Heiðar snyrtir svo frábær að ég var tilbúin að leggja ýmislegt á mig til að kynnast honum. Needless to say þá hef ég bæði komist yfir aðdáun mína á Heiðari og þroskast (vonandi) ögn svo ég held að það færi enginn á listann á svona forsendum í dag.