Góður gærdagur

Afmælisbarn gærdagsins var ég. Dagurinn var ósköp hefðbundinn framan af, ég var að vísu góð og kom með köku í vinnuna, bara vegna þess að ég er svo mikill grís að ég vil að aðrir séu virkir á sínum afmælum og þá verður maður víst að standa sig líka.
Eftir vinnu fórum við að skrifa undir kaup- og sölusamninga, svo það er endanlega frágengið. Mikil gleði það. Annað markvert gerðist nú ekki fyrr en um kvöldið en þá fór leynileg aðgerð Mumma í gang. Hann tók mig sem sagt út að borða og það var ógurlegt leyndó. Hann náði aðeins að gabba mig þegar ég var að útlista að ég gerði mig ánægða með hvað sem er, nema Greifann, mig langaði eitthvað aðeins nýstárlegra. Hann setti þá upp einhvern voða sárindasvip þannig að ég hugsaði að það væri auðvitað týpískt að við værum á leiðinni þangað fyrst ég hefði álpað þessu út úr mér! Hann keyrði auðvitað niður að Greifa til að halda gríninu úti en fór þaðan í miðbæinn og lagði miðja vegu á milli helstu staða bæjarins. En við fórum á Friðrik V. Heldur flottara en ég átti von á því Friðrik V. er besti staður bæjarins og við höfum ekki farið þangað nema við hátíðlegustu tilefni. En auðvitað voru mörg tilefni í gær. Það var auðvitað húsið og ég og svo áttum við Mummi 6 ára trúlofunarafmæli (sem er lygilegt svona eftir á að hyggja, mér finnst stutt að trúlofast eftir tveggja ára samband, en ég setti víst pressu á Mumma með það því ég var svo trúlofunardesperat!)
En hefst þá upptalning á lúxuskvöldinu. Við skelltum okkur auðvitað á gourmet matseðil eins og við gerðum í fyrra. Þá velur Friðrik rétti handa gestunum og kemur sjálfur fram og útlistar hvað hann er að bjóða upp á. Fyrst fengum við bara þetta standard brauð en fyrsti rétturinn sem við fengum var kinda-carpaccio. Trúið mér, það hljómar ekki endilega vel en bragðast framar öllum vonum. Næst fengum við sjávarréttaþrennu, sem samanstóð af tígrisrækju í hvítlauk, humri og krabbasúpu. Hvert öðru betra. Síðan fengum við bláberja-sorbet, algjört jumm. Aðalrétturinn var svo tvískiptur, annars vegar rauðvínseldaðar nautalundir og hins vegar snöggsteikt lambafíle (eða kótelettur, þetta var með beini). Það var ómögulegt að gera upp á milli, þetta var bæði alveg óhemju gott. Á eftir þessu fengum við þrjú eftirréttasmökk, hvítvínslegið mangó með melónusorbet, bláber með créme brulée og jarðarber í balsamic sýrópi með kókosfrauði ofan á. Fyrir mig, litla eftirréttagrísinn var þetta bara eins og að fá …. (ehemm). Síðan enduðum við á því að fá aðal-eftirréttinn, bakaðan súkkulaðibúðing með ís og hindberjasósu. Klassík sem við höfum áður fengið.
Ef þið hafið ekki borðað á Friðrik V. þá skuluð þið endilega láta verða af því við fyrsta tækifæri (kostar en er hverrar krónu virði).
Heima helltum við svo í okkur kampavíni sem hafði beðið eftir endanlegri undirskrift. Þar sem ég var búin að drekka vel af rauðvíni áður þá var ég pínu rykug þegar ég vaknaði í morgun. En allt vel þess virði.