Þá er þeirri helginni lokið. Með glans verð ég að segja, mikið át og mikið gaman.
Á föstudagskvöld fengum við þá litlu mágana mína og svilkonu í heimsókn. Það var ósköp gaman. Tæmt úr tveimur rauðvínsflöskum og svona. Ég var samt í pínu stressi yfir tímaskorti, mér fannst að ég þyrfti í raun að eyða föstudagskvöldi í bakstur og tiltekt.
Á laugardagsmorgun skúbbuðum við Sóleyju til tengdamömmu og hófum átakið. Það stóðst að síðasta kakan var í ofninum þegar við fórum til tengdó í bröns í tilefni húsasölunnar (já, ójá, Kringlumýrin er loks seld!!!) Rukum svo heim í tiltekt og annan undirbúning og það stóð heima að þegar Bjarni kom fyrstur manna þá var ég að koma úr sturtu.
Kaffiboðið tókst með miklum ágætum. Húsfyllir, góðar kökur (meðal annars frá Bakaríinu við brúna, ég er enn að reyna að fá frá þeim aðra eins fullkomnun og á brúðkaupsdaginn – þetta var ansi nálægt lagi að þessu sinni), og góðar gjafir. Mummi fékk meðal annars Stóru garðabókina, sem honum fannst augljósasti kosturinn, í ljósi nýjustu aðstæðna!
Um kvöldið fórum við út að borða. Og það var tvöföld hefnd fyrir Greifabragðið hér á afmælisdaginn minn. Ég byrjaði á því að keyra í Lindina og lagði og drap á bílnum, en meikaði ekki lengra með það grín. Svo keyrði ég af stað út úr bænum (nb í rétta átt). Beygði til Dalvíkur, hafði fengið þá snilldarhugmynd frá Mumma sem hafði giskað á að við færum á Brekku í Hrísey. Sneri svo við hjá brúnni og beygði til vesturs. Keyrði sem leið lá, Hörgárdalinn og inn í Öxnadal. Mummi var orðinn mjög ringlaður (enda vissi hann ekki af þessum stað, svo það var ekki von).
Áfangastaðurinn var Háls í Öxnadal, en þar er veitingastaður sem heitir Halastjarna. Okkur var vísað í fordrykkjastofu og sátum þar um stund við kertaljós og dreyptum á hvítvíni. Settum svo til borðs og hófst þá átið. Þetta er lítill staður, þarna var átta manna hópur fyrir og hefðu komist tveir í viðbót, svo matseðillinn var einfaldur. Það var fjögurra rétta máltíð óvissumáltíð.
Það sem við fengum að borða var rækjusúpa í karrý og kókos, saltfisktartar (hrá saltfiskstappa, betra en það hljómar, reyndar mjög gott), lambaprime með rósmarín og döðluterta með ís og rjóma. Allt saman alveg ljómandi ljúffengt.
Staðurinn svo yndislegur, allt gamalt og ósamstætt og ekki spillti fyrir að undir lokin voru köttur og hundur farin að labba um (að fengnu leyfi okkar) og falast eftir knúsi.
Sem sagt, afskaplega vel lukkað kvöld.
Í gær, á sjálfan afmælisdaginn, tókum við því heldur rólegar. Fórum í heimsókn til ömmu og afa hans Mumma og fengum Helga mág í mat og pabba og Höllu í kaffi í gærkvöld. Þvílíkur munur að vera búinn að koma efri hæðinni í gott stand og neðri horfir til betri vegar. Það er að minnsta kosti búið að reisa bókahillurnar upp, gekk ekki þrautalaust, því þær eru rétt aðeins lægri en loftið og þurfti miklar kúnstir þegar þær voru reistar.