Vááááá

Jamm, ég var á tónleikunum í gær. Ahhhh. Felt like old times. Það eru engin orð sem lýsa gleði minni yfir að vera þarna. Og þó svo ég hafi auðvitað út á ýmislegt að setja, þá hefur það í raun ekkert að segja. Ég held reyndar, að ég væri til í að eiga áskriftarkort á Synfóníuna, kannski bara grænt, en samt, ef ég byggi í Reykjavík.
Þetta stóð nú samt tæpt. Fluginu mínu frá Akureyri seinkaði, og var tæpt fyrir, þannig að ég kom út úr vél klukkan tuttugu mínútur yfir sjö og tónleikarnir byrjuðu hálf átta. En þökk sé ástkærum bróður og mágkonu komst ég á staðinn og inn í tíma.
Fyrir hlé var Synfónían með prívat gigg. Ég er ótrúlega hrifin af aðgengilegri klassískri tónlist þrátt fyrir að hlusta sjaldan af fyrra bragði. Þetta var virkilega fínt. En auðvitað ekki það sem ég kom til að sjá.
Ég fæ sting í hjartað við það eitt að sjá félaga mína í Nýdönsk. Og nei, ekki halda að ég sé svona skotin í þeim öllum, það er ég ekki, nema kannski á einhverju sex ára plani. Þeir eiga bara svona soft spot. Við eigum okkur fortíð. Óli Hólm á sérlega mikinn soft spot. Ef ég hefði móðureðli mætti segja að hann höfðaði til þess, hann er svo yndislegur. Hefur ekkert breyst þessi sextán ár sem leiðir okkar hafa legið saman. Stefán á bara soft spot þegar hann syngur Cheers, sem hann gerði auðvitað ekki í gær. Jón á svona soft húmor spot, ég kann ógurlega vel við hann. Björn Jr á svona hate/love spot. Ég veit ekki hvort ég hata að elska hann eða elska að hata hann. Bæði og. Ég var nú svo vel staðsett að sitja í beinni línu frá honum þannig að ég gat hatað hann og elskað í tíu metra fjarlægð eða svo.
Að tónlistinni. Þeir gerðu mig alsæla strax í fyrsta lagi, því þeir tóku mitt aðal uppáhaldslag, Skynjun (ekki það að það hafi verið hægt að sleppa því á svona tónleikum). Útsetningin ekki alveg að mínu skapi, mér fannst byrjunin ekki góð en batnaði svo. Svo tóku þeir tvö lög sem ég þekkti ekki, annað reyndar nýtt, held ég (og ég ekki nógu vel að mér í síð-Nýdönsk). Fjórða var svo Svefninn laðar, enn eitt af mínum uppáhalds. Full áköf útsetning fyrir þetta látlausa lag.
Svo voru lögin svona misþekkt, ekkert kannski sérlega vinsælt (eiginlega sem betur fer vegna þess að það var gott að vera laus við klénu deildina) fyrr en þeir tóku Flugvélar. Mér finnst það æðislegt lag og það allt, kannski ekki þess legt samt að það þurfi að klappa þegar það byrjar og svo er auðvitað mínus að tengja það alltaf við Flugfélag Íslands. Þeir enduðu svo á Klæddu þig og tóku tvö aukalög.
Það sem böggaði mig var eiginlega tvennt. Ég hefði annars vegar auðvitað vilja fá Daníel Ágúst með. Þó ég elski Nýdönsk vissulega svona, þá er enn hola í hjartanu þar sem Daníel var. Þeir ná aldrei að loka sárinu alveg. Hins vegar saknaði ég auðvitað nokkurra laga. Ég hefði til að mynda vilja heyra eitthvað af eftirtöldum; Allt, Ekki er á allt kosið eða Eplatré (allt snemm-Nýdönsk). En eins og ég sagði áðan, þeim var fyrirgefið allt, fyrst þeir tóku Skynjun. Og nú þarf ég bara að bæta mig í síð-Nýdönsk, engin miskunn Sóley, út með Fiskinn minn og inn með Nýdönsk. Það þarf hvort eð er að bæta tónlistaruppeldið.

Eftir tónleika fór ég svo í heimsókn til Önnu Lilju og átti þar góða stund.
Heimferðin gekk hins vegar alla vegana. Fyrst var seinkun á flugvélinni og svo eftir svona tíu mínútna flug var okkur snúið við vegna bilunar. Þannig að ég lenti klukkutíma á eftir upphaflega áætluðum tíma. Kom heim til veikrar dóttur, Sóley var með ælupesti og hafði verið veik um nóttina og eitt af hennar fyrstu verkum var svo að æla yfir mig. Ég er ekki besta móðir í heimi þegar kemur að svona, ekki það að ég sé vond eða neitt svoleiðis, ég á bara svo erfitt með að þrífa ælur. Ég man að þetta var eitt stærsta áhyggjuefni mitt hér í den þegar ég spáði í foreldrahlutverkinu. 😉