Jólafréttir

Jamm þau eru hugguleg þessi jól. Allt eins og það á að vera, góður matur, góðar gjafir, góður félagsskapur. Það eina sem hefur sett örlítið strik í reikninginn er ófærð, en mikið var samt yndislegt að labba um bæinn allan á kafi. Það er langt síðan ég hef gert það.

Þema þessara jóla (eins og jólanna í fyrra) varð Nýdönsk. Að þessu sinni fékk ég þrjú eintök af Skynjun á dvd og einn á geisladisk. Ég er bara ánægð með það. Hef nú þegar augastað á dvd með ABBA en hugsa að Mummi fái að velja (með) einhvern í staðinn fyrir þann þriðja. Mummi tók þetta þema alla leið, það var hann sem bauð mér á sjálfa tónleikana og gaf mér þá svo á dvd og keypti geisladiskinn fyrir hönd dóttur okkar. Ég fékk margt fleira ljómandi fínt og er í det hele mjög ánægð.

Sóley er ljómandi ánægð líka. Hún var tiltölulega róleg á aðfangadagskvöld, opnaði samt eina fjóra pakka eða svo og við svo fyrir hennar hönd eitthvað. Hún var ákaflega sátt við allt sem hún fékk en þar bar samt hæst bók með hljómborði. Í gær fékk hún svo að opna tvo pakka (til að foreldrarnir gætu legið sem lengst í rúminu) og var gríðarlega sátt líka, en í dag átti hún eftir fjóra pakka og þá kviknaði aldeilis á perunni. Við fórum og sóttum fyrsta pakkann undir jólatréð (fína jólatréð, sem þarfnast eiginlega sér færslu) og opnuðum hann uppi í rúmi og síðan þusti hún alltaf fram eftir næsta pakka og tætti utan af honum, leit svo rétt aðeins á innihaldið áður en hún sótti nýjan. Svo hún er heldur betur farin að átta sig á út á hvað þetta gengur allt saman.

Annars er ég eiginlega ánægðust með jólakortin. Þau verða veigameiri með hverju ári. Í ár fékk ég í fyrsta lagi mörg kort með ógurlega fínum myndum, sem er auðvitað alltaf gaman. Að auki fékk ég nokkur sem voru sérlega skemmtileg aflestrar og þau gleðja mig alltaf allra mest. Ég reyni sjálf eftir fremsta megni að hafa kortin frá mér á persónulegum nótum (en auðvitað misjafnt hvað ég er í miklu stuði) en nokkrir sem senda mér í mesta lagi með nafninu sínu undir fá það right back at them – sannur jólaandi!