Ég hef víst enga afsökun. Það er nóg til að segja frá og skrifa um en ég hef einhvern veginn ekki náð neinu andlegu sambandi við blogger þessa síðustu daga.
Ef ég reyni nú að koma einhverju frá mér á fréttatengdum nótum, þá ber það líklegast hæst að ég festi mér flugmiða til Svíaríkis (og hinum fjölskyldumeðlimunum reyndar líka). Markmiðið er að styrkja fjölskylduböndin og sýna afkvæmið. Kominn tími til að Strumpa rifji upp að Anna Steina er alvöru persóna en ekki bara símarödd.
Ég sem hafði rétt áður lagst í þunglyndi yfir utanlandaleysi og pantaði villt og galið úr HogM til að bæta mér það upp.
Mér lætur einkar vel að eyða pening þessa dagana. Fór á undirfatakynningu á þriðjudag, og af því að ég lenti í algjörri krísu með að velja á milli tveggja setta, þá gat ég ekki leyst það á annan veg en að kaupa bæði! Ég er náttúrulega algjört nærfatafrík – svona eins og sumar konur eru á skó. Nærfatablæti – það hlýtur að vera löglegt hugtak.
Jamm, ég er sjúk, ég ræð ekki við þetta!