Himneskur matur

Við fórum í matarboð til Hönnu og Ármanns í gær. Tilefnið var að þau voru að koma á blindu stefnumóti á milli bróður Ármanns og vinkonu Hönnu og við fengum að fljóta með til að hafa þetta frjálslegra, eða eitthvað þannig. Og vá, væri ég til í að vera fleirum innan handar með þessum hætti. Það sem var boðið upp á var hvorki meira né minna en
1) Marineruð lúða (í lime, jalapeno og chilli svo eitthvað sé nefnt). Þennan forrétt hefði ég getað borðað sem forrétt, aðalrétt og eftirrétt, hann steinlá algjörlega.
2) Kókosmjólkurlegnar kjúklingabringur með hnetusmjörssósu (hljómar furðulega en smakkast æðislega).
3) Sítrónumarengsterta og frönsk súkkulaðiterta (sem var aðallega súkkulaði, og að hinni ólastaðri, á venjulegum degi hefði ég stunið af gleði, þá var ekkert sem komst í hálfkvisti við súkkulaðikökuna.)

Með þessu var fyrst hvítvín og svo fjórar mismunandi sortir af rauðvíni (ástralskt, franskt, chílískt og portúgalskt, hvert öðru betra).

Svo við komum heim í nótt í algjörri sæluvímu. Þetta var sko nammidagur í lagi 🙂