Bloggletingi

Jamm, ég veit alveg upp á mig skömmina. En þannig er að Sóley var lasin á miðvikudag og fimmtudag, og ég er bara alveg sérlega löt að blogga heima. Ef ég fer í tölvuna þegar Sóley er uppi við, þá er ekki flóafriður, ekki beint ídeal bloggaðstæður.
Svo vindur þetta upp á sig og maður veit hreint ekki hvar á að bera niður í viðburðaríkri ævi.

Það sem er svona lesendavænast er í fyrsta lagi ágætt gullkorn frá Strumpu, sem sýndi um helgina að súkkulaði- og grísgenin eru mjög virk þó þau fái venjulega litla hvatningu. Þannig er að við fórum á Bláu könnuna á laugardag, og verandi mjög nægjusöm fjölskylda, fengum við okkur eina sneið af ostaköku saman. Sóley var himinlifandi að fá rjóma og þegar Mummi sagði henni að hún ætti líka að fá sér kökubita, sagði fröken ákveðið „ekki kökubita, bara rjóma“.

Annað dæmi um grísaháttinn, er að á sunnudagsmorgun fór ég í bað og Strumpan var þá eftirlitslaus á vappi. Þegar mér fannst þögnin vera orðin ískyggileg fyrir utan stöku skrjáf, rifjaðist upp fyrir mér að það var poki af súkkulaðirúsínum í glugganum í stofunni, svo ég kallaði fram og spurði þá grunuðu hvort hún væri nokkuð að borða súkkulaðirúsínur. Litli glæponinn er ekki orðinn svo forhertur enn að hann kunni að ljúga – svo játningin kom undir eins. Og Strumpan sat alsæl með rúsínupokann þegar ég kom upp úr baðinu nokkru seinna.

Genin leyna sér sem sagt ekki 🙂