Alltaf gerist maður menningarlegur í ofurskömmtum. Ég byrjaði á frekar lágmenningarlegum nótum og fór með manninn að sjá Ríginn (sýningu MA og VMA) á föstudagskvöld. Það er skemmst frá að segja að sýningin var stórskemmtileg og flott sett upp. Sem innansveitarmanneskja á báðum stöðum náði ég flestum bröndurum, held ég, og það var ótrúlega flott hvernig var farið með klisjurnar um snobbliðið í MA og hálfvitana í VMA.
Næsti menningarviðburður verður líklegast Pakkið á móti hjá LA á föstudagskvöld og svo er það auðvitað hápunktur vetrarins í næstu viku, þegar elsku mágur minn er með lokatónleika.
Af svefni Strumpunnar er það helst að frétta að þessi morgunn í síðustu viku virtist ætla að verða tilviljun – hún vaknaði hálfsjö næstu morgna (þar á meðal í pössun hjá föðursystur sinni á sunnudagsmorgun). En bæði í gær og dag hefur hún sofið langleiðina í átta og það er vonandi þróun sem heldur áfram.
Styttist annars í alvöru lífsins, leikskóli eftir þrjár vikur. Hún er vægast sagt orðin spennt, aðallega vegna þess að hún er búin að taka eftir gríðarlega fínni rennibraut á lóðinni 🙂