Sumarpóstur

Áttum alveg yndislegan sumardag hinn fyrsta, litla fjölskyldan. Strumpa byrjaði sumarið vel, svaf til klukkan átta. Fórum í sund fyrir allar aldir, þar sem hún eignaðist tvær eldri vinkonur (svona fimm ára) sem tóku hana að sér um stund. Foreldrahjartað tók stoltkipp við að sjá félagsþroskaða barnið svara hvað hún héti og eiga í örlitlum samræðum við þær.
Að því búnu fórum við í sveitaferð og skoðuðum lömb, kiðlinga, hænsn og fleira á bæ einum í Eyjafjarðarsveit, en við höfðum rekist á auglýsingu um opið hús í héraðsfréttabréfinu. Strumpa var nú alls ekki á því að geiturnar væru neitt annað en kindur (og afar illa dulbúnar) og gekk um allt á eftir hundinum og kallaði hann kjánann sinn. Við komum svo við í Vín og fengum okkur meira af góðgæti en hægt er að játa á opinberum vettvangi 🙂
Seinnipartinn hófust fyrstu garðverk sumarsins. Aðeins rakað af lauf-flóðinu, sumarhúsgögnin tekin fram og sömuleiðis grillið.
Og enduðum svo daginn á því að fara í góðan hjóltúr um hálfan bæinn, stoppuðum meðal annars uppi á hól hjá gamla húsinu hans Óla stóra og nutum útsýnis og veðurblíðu.

Í kvöld bíður leikhúsið og um helgina frekari garðvinna – og veðurspáin er góð.