Menningarpósturinn – annar hluti

Þá var það leikhúsferð hin síðari á föstudagskvöld, að þessu sinni sýning LA á Pakkinu á móti. Ferðin var hin ágætasta, þó svo maður geti kannski sagt að þetta efni (lífið eftir 11. sept / múslimaofsóknir) sé kannski full fjarlægt manni til að það risti djúpt. Ég get ekki sagt að ég hafi verið mjög upptendruð eftir á.

Helgin var svo öll hin ljúfasta. Fyrsta alvöru garðvinnan í gær. Afraksturinn einir tólf – þrettán ruslapokar af laufi, greinum og öðru lífrænu. Það sem meira er, þetta var bara ágætlega gaman, enda veðrið ágætt. Síðan sund- og kaffihúsaferð á Dalvík og heimsóknir og matarboð á laugardag. Át, át, át 🙂 Ég er klárlega feitari en á föstudaginn.

Síðan er það Reykjavíkurferðin sem bíður. Strumpan býsna spennt, spyrjum að leikslokum hvað henni finnst um að sitja í bíl í marga klukkutíma. Við höfum ekki lagt það á hana síðan í fyrrasumar.