Já, loksins kom hann, þessi stórmerkilegi dagur. Fyrsti leikskóladagurinn. Þau voru þrjú sem byrjuðu í aðlögun á deildinni í dag, þar á meðal Anna Margrét sem við þekkjum síðan á fæðingardeildinni.
Strumpan var ákaflega hæversk til að byrja með og hékk í pilsfaldinum (eða buxnaskálminni) á móður sinni en var ögn farin að koma til og skoða dót og dunda sér. Svo breyttist hún alveg þegar við fórum út að skoða leiksvæðið og hún æddi þar um allt og inn í krakkahópa og ég veit ekki hvað og varð svo bálreið þegar reynslutímanum lauk og við fórum heim.
Mér finnst þetta örugglega meira ógnvekjandi en henni, nú er hún einhvern veginn bara kominn inn á færibandið og orðin minni eining en áður. Svo mér veitti, held ég, ekki af lengri aðlögun 🙂
Svo tókum við tæknina í þjónustu okkar á föstudaginn og töluðum við Önnu Steinu í gegnum vefmyndavél. Það vakti ómælda lukku hjá Strumpu og mátti ekki á milli sjá hvort hún væri heillaðri af sér í mynd eða því að sjá framan í þessa frægu Önnu. Ekki spurning að þetta verður nýtt aftur.