Þema vikunnar

Stend í ströngu í æfingabúðunum. Ekki einasta fór ég á Netið til að finna Duran Duran texta (það þarf að leiðrétta ýmislegt, virðist sem The Reflex sé ekki einkabarn heldur einmana barn) heldur horfði ég á flest lögin á DVD disknum. Og það var bara hreinn unaður. Í fyrsta lagi gleðst maður alltaf yfir að sjá eighties dansa. Svona ætla ég að dansa einhvern tímann í ellinni. Í öðru lagi bættu þeir ögn upp vöntunina á The Chauffeur á geisladisknum og það er þetta fína erótíska myndband við það. Í þriðja lagi tóku þeir Reflex af Arena og það var bara nostalgíukast að horfa á það. Ég meina, við áttum tónleikana á videó og ég held að ég hafi kysst amk Simon, John og Nick vandlega á sjónvarpsskjánum. Þetta var, held ég, röðin á því hver var sætastur. Og svo Andy og Roger einhvers staðar langt á eftir. Núna finnst mér John hafa elst best. Hann er orðinn ögn karlmannlegri en hann var. Ég mun því hiklaust fylgja ráðum leggjalöngu stúlkunnar og stilla mér upp vinstra megin til að sjá hann sem best.