Fór í gærkvöld og sá Nýdönsk spila á Torginu. Þeir voru æðislegir eins og vant er, Björn Jr skartaði meira að segja nýrri hárgreiðslu síðan síðast, svona ekki ósvipað pimp hárinu hans Guðmars hér um árið – jæja, kannski öllu skárra. En mig verkjaði maður, mikið langaði mig ógeðslega á ball. Ég hefði nánast þegið hvern sem er sem samferðarmann.
Þetta er það eina sem hefur hafst upp úr þessari andstyggðarhátíð, ekki það að við höfum svo sem forðast hana eftir megni. Fórum í allsherjar gönguferð í gær um bæinn í þvílíku veðri að ég brann á hálsinum. Í dag fórum við svo í heimsókn í Skóginn til Árnýjar og Hjörvars, líka í ágætu veðri, sérstaklega framan af. Og þriggja ára afmæli á morgun að öllum líkindum.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júlí 2005
Mætt á svæðið og nokkrum dögum betur
Ég býst ekki við að nenna að skrifa langa og ítarlega ferðasögu. Skemmst frá því að segja að það var reglulega indælt í Svíaríki. Verslunarmiðstöð Borlänge reyndist hin prýðilegasta, raunar svo stór að þrátt fyrir reglulegar ferðir var ég ekki alveg búin að ná áttum undir það síðasta. Og verslunareigendur undu glaðir við sitt og væru örugglega til í að hefja reglulegt flug frá Íslandi 🙂 Engar romsur um allt sem ég keypti en þrennt sem þarf samt að fá að fljóta með, dásamleg flauelsdragt, yndislegur kjóll (Filippa K) og svo keypt á síðustu stundu, forláta leðurjakki, dökkbrúnn.
Anna systir og Haval stjönuðu við okkur á alla lund svo það eru mikil viðbrigði fyrir strumpu að koma heim í hversdagsleikann. Við eyddum síðasta deginum í Stokkhólmi og sú borg kom aldeilis á óvart. Ég hef aldrei verið sérlega spennt að koma þangað, enda hefur borgin við Sundið átt einkarétt á mér, en ég var svo sem farin að hafa meiri áhuga þegar stefndi þangað. Nema hvað, ég held bara að Stokkhólmur sé fallegasta borg sem ég hef komið í. Við gistum á hóteli í Gamla stan og það var ótrúlega notalegt að ganga þar um. Síðasta deginum eyddum við að mestu á Skansen og það var mjög gaman. Sáum meðal annars kóalabirnina Teddý og Freddý (sounds familiar?) ásamt fleiri kvikindum.
Höfum mest legið í leti eftir heimkomu. Strumpan á enn eftir þessa viku í sumarfríi og við reynum að lifa hana af í sameiningu. Kvíði samt næstu helgi, ég er ekki að nenna í umferðarhnúta og mér líst líka illa á að vera heima í viðbjóðnum. Urr. Ljóta hátíð!
Farin
Er að fara að leggja í’ann til Svíþjóðar og stórefast um að fréttir berist fyrr en við heimkomu um 22. júlí eða þar um bil. Heyrumst.
Gömlu goðin
Ég tilheyri þeim stóra hluta sem fór á tónleikana í gær til að uppfylla gamlan draum, hef sem sagt ekki verið að gefa þeim mikinn gaum síðustu árin. Búin að taka síðustu daga í ærlega upprifjun og það hefur verið býsna skondið. Maður hlustar dálítið öðruvísi á lögin en í gamla daga. Eins hef ég tekið ýmis lög í sátt sem mér leiddist óskaplega í denn. Til dæmis Wild boys, ef maður horfið fram hjá söngnum og sérstaklega óþolandi viðlagi, þá er þetta frábært lag. Og Careless memories rokkar feitt. Það kemst samt ekkert með tærnar þar sem Rio hefur hælana (þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um lög eins og Planet Earth, The Chauffeur og The Seventh Stranger). Ég fékk að heyra öll uppáhöldin mín í gær nema það síðast talda. Eitt lag er það sem ég get ómögulega náð að taka í sátt, það er A View to a Kill. Voðalegt lag, með voðalegum hljómborðseffektum.
Ég var búin að sverja í fyrra eftir Metallicu að fara aldrei aftur á tónleika á B svæði en þar sem þeir stóðu svona eins og fífl að miðasölunni neyddist ég til að svíkja þetta og var með Hjörvari og Magnúsi uppi á hliðarbekkjum. Í góðum fíling. Mikið var þetta ógnargaman, þrátt fyrir daufan miðkafla, þá náðu þeir svo geðveiku trukki í lokin. Ég keyrði heim eftir tónleika með Duran undir geislanum og brosið allan hringinn. Gott ég klikkaði ekki á þessu.