Mætt á svæðið og nokkrum dögum betur

Ég býst ekki við að nenna að skrifa langa og ítarlega ferðasögu. Skemmst frá því að segja að það var reglulega indælt í Svíaríki. Verslunarmiðstöð Borlänge reyndist hin prýðilegasta, raunar svo stór að þrátt fyrir reglulegar ferðir var ég ekki alveg búin að ná áttum undir það síðasta. Og verslunareigendur undu glaðir við sitt og væru örugglega til í að hefja reglulegt flug frá Íslandi 🙂 Engar romsur um allt sem ég keypti en þrennt sem þarf samt að fá að fljóta með, dásamleg flauelsdragt, yndislegur kjóll (Filippa K) og svo keypt á síðustu stundu, forláta leðurjakki, dökkbrúnn.
Anna systir og Haval stjönuðu við okkur á alla lund svo það eru mikil viðbrigði fyrir strumpu að koma heim í hversdagsleikann. Við eyddum síðasta deginum í Stokkhólmi og sú borg kom aldeilis á óvart. Ég hef aldrei verið sérlega spennt að koma þangað, enda hefur borgin við Sundið átt einkarétt á mér, en ég var svo sem farin að hafa meiri áhuga þegar stefndi þangað. Nema hvað, ég held bara að Stokkhólmur sé fallegasta borg sem ég hef komið í. Við gistum á hóteli í Gamla stan og það var ótrúlega notalegt að ganga þar um. Síðasta deginum eyddum við að mestu á Skansen og það var mjög gaman. Sáum meðal annars kóalabirnina Teddý og Freddý (sounds familiar?) ásamt fleiri kvikindum.
Höfum mest legið í leti eftir heimkomu. Strumpan á enn eftir þessa viku í sumarfríi og við reynum að lifa hana af í sameiningu. Kvíði samt næstu helgi, ég er ekki að nenna í umferðarhnúta og mér líst líka illa á að vera heima í viðbjóðnum. Urr. Ljóta hátíð!