Gönguklúbburinn hóf aftur göngu sína – bókstaflega – á mánudagskvöld, eftir æði langt hlé og sístækkandi bumbu í takt við það. Nema hvað, til að nýta síðustu sumarfrísdagana sem best ákvað ég að fylgja Kristínu líka í sund, hún hefur tekið sundið svona meðfram. Þannig að eftir skutling á Strumpu í morgun, drifum við okkur -Mummi hló bara að mér þegar ég dró fram sundgleraugu og spurði hvort ég ætlaði að synda, ég lofaði hátíðlega 200 metrum en gerði svo bara gott betur og fór heila 400 metra. Það eru 16 ferðir, ef þið áttið ykkur ekki á hvurs lags vegalengdir ég lagði að baki! Og lofaði hátíðlega að synda líka í fyrramálið. Verst að það er erfitt að bæta svona góðan árangur 😉
Annars sit ég enn við skriftir og stefni að því að klára ritið góða á morgun eða svo, til að geta sent það í yfirlestur áður en fjölritun hefst. Og fara þá að streyma inn tekjurnar af sumarvinnunni.