Ég auglýsi hér með eftir skemmtilegra sextugsafmæli en ég var í í gær. Verð amk illa sátt ef mitt verður betra 🙂 Sem sagt, tengdamamma varð sextug á föstudag og haldið formlega upp á það í gær. Fyrst hádegisboð fyrir kellurnar – hápunkturinn þar að Óskar Péturs kom og söng og dyggir lesendur vita að það þarf ekki meira til að gleðja mig. Hápunkturinn var svo kvöldmatur og drykkja tengdafólkinu (öllu nema Nonna – en hann fékk jú nokkur sms undir lok partýs – svona til að fá að vera með). Nema hvað, þetta var alveg óheyrilega gaman. Tónninn var gefinn snemma kvölds þegar Ármann, svili minn, sýndi miklar kúnstir og tók koníak í nefið. Það leit ekki gæfulega út en var ákaflega fyndið að horfa á. Hanna fylgdi fljótlega í kjölfarið, með enn meiri látum og þá leit þetta bara út fyrir að vera ógeðslegt. Helgi tók næstur í nefið með yfirlýsingar um að taka bara í aðra nösina – en þegar hann loksins kom því inn (var frekar stíflaður) var það svona ægilega losandi að hann flýtti sér að taka í hina líka og hafði að sögn ekki verið eins hress í nefi í allt sumar 🙂 Ég ákvað að prófa líka og get ekki sagt annað en ég mæli með því. Ég hef reyndar efasemdir um áhrifin annað en að þetta er mjög frískandi, pínu sóðalegt reyndar. Hafið þetta samt í huga fyrir næsta partý – góður og frumlegur „drykkju“leikur.
Síðan fóru menn einn af öðrum að sýna leynda hæfileika, misleynda og mismikla reyndar og hófst það á hrikalega fyndinni eftirhermu þar sem Ásdís hans Helga tók Leoncie – hreimurinn gjörsamlega óborganlegur. Ég lofaði að taka númer ef Ásdís þyrði að flytja Leoncie og tók þar af leiðandi eina númerið sem ég á, „Kylling og soft-ice og pølser“. Nota bene, allt tekið upp á videó *kjánahrollur*. Hanna átti næsta leik með að leika heyrnleysingabrandarann sinn – hann er pínu dónó og það var langfyndnasti hlutinn að sjá mömmu og afa hans Mumma gráta úr hlátri. Lena, litla barnið í fjölskyldunni tók svo í nefið líka og var býsna sátt og Helgi og Siggi enduðu á því að syngja „Svangir bræður“. Svo vorum við farin að syngja eitt og eitt (eða hálft) lag – við Helgi til dæmis „Ah-bú“ – hann var hissa á að ég kynni það (og jafnvel betur en hann á köflum, amk textalega, kannski ekki músíklega) og við Hanna „Stína var lítil…“. Að öðrum ólöstuðum var Hanna stjarna kvöldsins, hún var í banastuði og reytti af sér brandarana – en aðrir alveg óendanlega hressir líka.
Þessu góða afmæli lauk um eitt og ég hefði svo verið til í að fara meira á djammið. Ég er til að mynda komin í brjálaða dansþörf og verð að fara að fullnægja henni áður en ég spring eða skandalísera út í búð eða eitthvað. Tók loforð af Hönnu og Ármanni að fara á djammið fyrr en seinna.
Það sem toppaði svo allt, var að Strumpan var í gistingu hjá Gylfa afa og Öddu ömmu, (æfingabúðir fyrir Pólland) og við því algjörlega áhyggjulaus. Sváfum líka til að verða tólf (hver man svona lúxus?). Þannig að ég er fegurri en ég hef lengi verið (virkar það ekki þannig??)