Sumri hallar…

… og alvara lífsins tekur aftur við. Á morgun hefst vinna. Fékk „barnið“ í hendurnar í fyrradag (Dansk grammatik – tekið saman af Hafdísi Ingu Haraldsdóttur) og það lítur vel út og verður gaman að sjá hvernig það virkar out in the real world. Skítaveður þessa síðustu frídaga – passlega blíðuspá fyrir morgundaginn. Þannig hefur ekkert gerst í garðinum eins og stóð til, skúrinn enn óáborinn og með þakpappalaust horn.
Önnur tíðindi þau helst að Prins Valíant þurfti til læknis í gær. Það var svo komið að ælupollar voru að verða daglegt brauð og eðli málsins vegna ekki að toppa neina vinsældarlista að þrífa það (eða stíga í). Kom í ljós að hann er með svona heiftarlega barkarbólgu að þegar hann borðar, ertist allt upp og hann hóstar og hóstar og gubbar síðan. Svo hann fékk alls kyns sprautur sér til heilsubótar og augndropa (sýking eftir síðustu slagsmál við norska nágrannann) og ætti að verða jafngóður ef ekki betri innan tíðar.
Svo verð ég að láta fylgja með að við erum búin að uppgötva nýjan ofurís. Kallast Fruttis og fæst í Kaffi Rós í Blómavali. Úff, úff, úff. Samanstendur af ávaxtasulli og venjulegum ís – fæst í mörgum bragðtegundum (höfum nú þegar prófað fimm og mandarínu stendur upp úr) og er bara ótrúlega ferskur og hrikalega ávanabindandi. Kemur kannski í ísbúðina í Álfheimum fyrir ykkur sem ekki eigið heimangengt til að smakkað dásemdina.