Póllandspælingar

Ég er búin að skoða heimasíðu hótelsins í Póllandi til að skoða hvað er mikill lúxus í boði. Við skulum átta okkur á að ég hef ekki verið á fimm stjörnu hóteli áður, svo það er óvíst hvað ég næ að skoða Varsjá vel 🙂 Ég er alla vega ákveðin í að nýta mér öll fríðindi og þægindi hótelsins. Skoðaði líka HogM búðaúrvalið, þær eru allnokkrar. Ég er nefnilega búin að skera utanlandsferðir niður um eina þetta haustið svo það veitir mér pínu leyfi til að kaupa ögn. Það verður sem sagt engin Dublinarferð að þessu sinni. Búin að lofa dóttur minni tveimur pökkum (hún er öll í samningum þessa dagana af því að hún er reglulega minnt á að hún verði í gistingu hjá Gylfa afa og Öddu ömmu og eigi að vera voða góð.)
Úlpukrísan stendur annars enn yfir. Ég mátaði hana aftur áðan til að kvelja mig óstjórnlega meira. Ég var sæt sem aldrei fyrr í henni. Kannski er þetta aldurinn og ég er bara að gera mistök með því að tengja sætleikann við úlpuna. Ég er í raun bara seinþroska í fegurð og 32 er einhver lykiltala í fegurðarþroska mínum 🙂