Úlpukrísa

Álpaðist inn í Sportver í fyrradag og mátaði þar af einhverri rælni úlpu sem ég sá. Hún var í svo voða sætum litum, ólívugrænum meðal annars og mér fannst hún virka fín. Það versnaði heldur betur í því þegar ég mátaði hana, því ekki nóg með að úlpuskömmin væri fín – ég var líka fín í henni. ARGh. Hún kostar 19000 og það var ekki inni á ráðstöfun mánaðarins að splæsa í úlpu, hvað þá á þessu verði (ok þetta er vissulega „lítið“ verð fyrir góða úlpu eeen…) Nú get ég ekki hætt að hugsa um hana og ég finn á mér að þetta verður ein af þessum flíkum sem maður man alltaf eftir að hafa ekki keypt.