Leiðinleg vinna

Ég velti fyrir mér hvort það séu margir sem lenda í því að fá spurninguna hvort það sé ekki leiðinlegt í vinnunni þegar þeir segja hvað þeir gera. Þetta kemur iðulega fyrir mig þegar ég segist kenna dönsku. Rosalega getur fólk verið mikið fífl. Væri ég ekki mögulega að gera eitthvað annað ef mér þætti leiðinlegt í vinnunni? Ég veit ekki hvort aðrir kennarar fá þessa spurningu mikið en af samanburðarrannsóknum þá virðast allir kennarar eiga við sama vandamál að etja. Nemendurnir eru svo óskaplega svipaðir á milli faga – sumir eru góðir alls staðar, aðrir leiðinlegir alls staðar og svo eru það þeir sem njóta sín í sínum greinum. Þeir finnast líka í dönsku. Ég veit um nemendur sem þjást fyrir að geta ekkert í ensku. Ég veit um nemendur sem velja spænsku þó þeir kunni ekkert í neinu tungumáli. Ég hef það ekkert betra eða verra en næsti kennari. Þetta er allt sama tóbakið.