Eldfimur dagur

Það var svolítið fróðlegur þessi baráttudagur hér í skólanum í gær. Bæði meðal nemenda og kennara. Meðal annars kom upp ágæt umræða hjá kennurum (sem sýnir hvað sumir geta verið naív) um jafnrétti í launum karl- og kvenkennara. Vissulega erum við með launatöflu sem á að ganga jafnt yfir lýðinn en síðan höfum við dæmi um aukastörf innan skólans sem voru betur borguð eftir að karlmaður tók við. Það er reyndar týpískt dæmi a la auglýsingarnar frá VR, sem sýna konur selja sig ódýrar en menn og fyrst og fremst upp á okkur kvenfólkið að klaga. En meira en að segja það að brjótast út úr því munstri.
Hins vegar voru umræður hjá nemendunum (þeim karlkyns) á sínu venjulega óþroskaða plani og ekki hjá því komist að maður velti fyrir sér hvort það sé ljós í myrkrinu þar.
Við mæðgur sóttum svo baráttufund í Sjallanum. Ég er einhvern veginn orðin enn kvenmeðvitaðri, eigandi dóttur, svo það var öndvegis frábært að draga hana með. Strumpan reyndar eins og ljós, klappaði af öllum kröftum þegar við átti.