Gullkornið

Þegar ég kom að sækja Strumpu í leikskólann í fyrradag, var búið að skrifa gullkorn upp á töflu – samræður sem áttu sér stað í framhaldi af tannverndarumræðu. Spurt var hvort sykur væri hollur fyrir tennurnar og ekki stóð á svari – nei, bara fyrir pönnukökur. Ég þóttist kannast eitthvað við rökfærsluna þó ekkert stæði um hver hefði svarað svona skilmerkilega. Enda stóð ég Sóleyju einu sinni að því að sturta í sig sykri og þá fékk ég álíka svar frá henni. Ég prófaði þessa spurningu svo á henni á leiðinni heim og fékk eitthvað álíka svar og fannst grunurinn þá vera vel staðfestur. Í morgun hins vegar, þegar ég skilaði henni, fékk ég það svart á hvítu, það var dóttir mín sem vissi allt um hollustu sykurs.

Í fyrradag fórum við líka í hundaheimsókn og sáum eina 8 hvolpa (sjá hér, undir íslenski fjárhundurinn – got). Sóley Anna var alveg að tapa sér af gleði og undirrituð reyndar líka.
En minnug þess að ég fór í eina hvolpaheimsókn um 8 ára aldurinn eða þar um bil og nauðaði í mömmu svo vikum skipti á eftir að fá hund (og þetta var Poodle!!!) en sá síðan ljósið seinna að ég væri bara heppin að hafa ekki fengið poodle hund, þá býst ég nú við að það sé gott að liggja svolítið yfir því áður en maður fær sér hund. Allir hvolpar eru æðislegir en það þýðir ekki að maður eigi að stökkva til.