Að Emma eða ekki Emma?

Nú er ég á leið inn í mikið krísuástand. Þannig er að ég hef tekið að mér afleysingar í MA í maí og í framhaldi af því liggur í loftinu að mér verði boðin einhver vinna þarna næsta haust. Glöggir lesendur muna kannski að þetta stóð mér líka til boða í vor en þá stóð þannig á spori að ég var beinlínis búin að lofa mér að kenna eins og móðerfokker hér og gat engan veginn svikið lit. Nú er þetta öllu meiri fyrirvari, þannig að ég gæti farið héðan án þess að vera algjör Júdas. Reyndar án þess að fara yfir höfuð, ég sé svo sem ekki fram á heila stöðu í MA þannig að ég þyrfti líklegast eftir sem áður að kenna hér líka.

Það má segja að þá væru gamlir draumar að rætast. Fyrir margt löngu þegar ég ákvað að verða kennari, var þetta stefnan. Og hvað nú? Ég er hrædd um að ég fengi ákveðin Júdasarstimpil á mig ef ég færi niður eftir, því rígurinn er ekki síðri meðal kennara en nemenda! Og ekki er spennandi að vera á tveimur stöðum, ég er hrædd um að þá yrði maður alltaf utangarðs, sama hvar maður væri. Svo líkar mér óskaplega vel hér. Veit hvað ég hef.

Ég fór í heimsókn í MA í gær og það var skrýtið að koma þar inn. Skrýtið að vera hinu megin við borðið, ef svo má að orði komast. Þetta hafa væntanlega fleiri upplifað, flestir kennararnir uppaldir þarna.