Mér var ráðstafað í gærkvöld á meðan ég var í leikfimi. Þannig var að við fengum upphringingu frá Kristínu þar sem hún var að falast eftir því að fá mig með á jazz-tónleika og þar sem ég var ekki innan kallfæris ákvað Mummi fyrir mína hönd að ég færi (ég var að vísu búin að velta fyrir mér fram og til baka í gær og fyrradag hvort ég ætti að fara, svo það var kannski viðbúið). Nú skilja kannski einhverjir lesendur hvorki upp né niður, síðan hvenær er ég svona áhugasöm um jazz? Síðan aldrei náttúrulega, þó ég hafi nú meira þol gagnvarti jazzi en mörgum öðrum tónlistarstefnum.
En þannig var (og nú er ég búin að gera stutta sögu mjög langa) að þetta var danskt tríó, tríó Valdemars Rasmussen og með þeim Johannes Møllehave (sem er afar frægur og umdeildur prestur í DK, mikill húmoristi og ég þekkti hann af pistlum sem ég hafði lesið í Politiken). Þannig að í gærkvöld var ég, ásamt ýmsum af dönskukennaravinum mínum, að hlusta á jazz og hann Jóhannes og eyrum máttu aldeilis blaka hratt. Sá hinn góði maður talar algjörlega óstöðvandi, hann stoppaði ekki einu sinni í hlátrasköllunum, svo mikið óð á honum og hann þurfti mikið að segja. Hann var að skilgreina húmor og gerði það með dæmum, þannig að upp úr honum ultu brandarar á færibandi. Þetta var alveg óhemju gaman og þarft. Manni veitir ekki af að þurfa að reyna á dönsku-eyrun sín, svona almennilega.
Hér flýtur einn (maður man aldrei neinn stundinni lengur – þannig að hann er ekki orðréttur).
Der var en gang en bjørn som satte sig ind på en bar. Det var selvfølgelig en hun-bjørn og hun fik sig lidt at drikke. Mens hun sad der kom en fuld mand ind, gik hen til hende og kyssede hende lige på snuden. Hun-bjørnen slog manden så han fløj helt ud på gaden. Der lå han, rystede på hovedet og sagde – ja, det er helt klart, så snart de har fået en pels, bliver de snobbede.