Óvissuferðin

Þá upplýsist leyndarmálið. Ég fór með Mumma austur í Mývatnssveit, á Hótel Sel nánar tiltekið og við eyddum þar einni nótt. Fengum þriggja rétta máltíð um kvöldið og höfðum það svo náðugt – sváfum í eina 11 tíma eða svo 🙂 Það þarf ekki meira til að gleðja mann á gamals aldri. Á laugardaginn fórum við í Jarðböðin, vorum tvö ein og nutum lífsins. Héldum síðan heim á leið. Endurnærð, náttúrulega, á sál og líkama.
Ég fékk gönguskó í 10 ára gjöf. Þetta eiga víst að verða meira en fögur fyrirheit, þessi gönguplön fyrir sumarið…

Helgin að öðru leyti farið í að sinna gamla fólkinu. Afa og ömmustundir bæði laugardag og sunnudag. Fengum reyndar Kristínu og Árna í heimsókn á laugardagskvöld í fajitas alla Mummi (með heimagerðu salsa og guacamole, jömmsjömms) og spiluðum við þau eitt Catan. Þar sem þau eru byrjendur gátum við reyndar ekki tekið þau í riddara (framlenginguna sem ég gaf Mumma í 10 ára gjöf) en þetta kom þeim vonandi á bragðið. Ég var svo elskuleg að ég hélt vandlega aftur af mér í spilamennskunni, Mummi var ekki alveg eins góður gestgjafi!