Síðan síðast

Ég átti aldeilis ágætt páskafrí, utan þess að Strumpan var veik stóran part. Við gerðum góða ferð til Reykjavíkur þar sem við fórum meðal annars í leikhús á Ronju ræningjadóttur (sem kostaði miklar grenjur eftirá – það er svo sorglegt að geta ekki farið strax aftur), fórum í heimsóknir, á kaffihús, lítillega í búðir (engin frammistaða svo sem þar) og spiluðum heil ósköp. Síðan fengum við selskap tilbaka, Sigrún Sacher dvaldi hjá okkur yfir Páskana – eldaði oní okkur og var hinn besti gestur á allan hátt.

Svo byrjaði vinnan aftur. Skrýtin staða hjá mér í augnablikinu. Ég sótti um í MA og veit líklegast í næstu viku hvort ég fæ starfið, þannig að mögulega er ég að kenna síðustu kennsluna mína hér.

Átak dauðans hófst á þriðjudag, eftir óhóflegt át síðustu vikna (sjá um það bil allar bloggfærslur undanfarnar vikur). Keppni hjá mér, Mumma og Hönnu (Ármann sem er stráið í hópnum er nú reyndar með líka, veit ekki að hverju hann keppir). Hönnu líst að vísu illa á tímasetninguna, bæði afmæli og það sem verra er, ferming framundan. En núna er bara aðhald (gulrætur og vatn allan daginn í vinnunni, nema þegar er boðið upp á nammi og rjómapönnsur) og svo mun verða út maí mánuð. En þá skal ég líka komast í árans gallabuxurnar aftur án þess að hafa keppi upp að brjóstum!