Þá er komið að fyrsta MA djamminu mínu. Á morgun verður lagt í ógurlega haustferð, svo ekki sé meira sagt. Dagurinn er allur lagður undir og verður farið í mikla menningarferð og langar gönguferðir. Leiðir munu liggja í Mývatnssveit, að Dettifossi og í Hólmatungur og snætt í Skúlagarði. Amma hefði glaðist ógurlega. Við hjónin búin að útvega pláss fyrir grísinn svo við getum tekið þetta með trompi. Enginn annar en Örn Þór, minn góði gamli frönskukennari sér um að gæda. Hlakka voðalega til. Enn bíður þó hinn merkilegi „undir 40 hittingur“ sem hefði aldrei orðið meira en fimm manna partý í VMA. Unglingarnir í kennaraliðinu stungu meira að segja upp á að breyta þessu í „U – 30“ en þá stappaði ég niður fæti og sagði að það væri bannað að stimpla mig inn í einhvern gamallakennarahóp. Vona að þau mótmæli dugi.
Mánaðarskipt færslusafn fyrir: september 2006
Sagan af sukkaranum
Hér kemur ein af Strumpunni. Þannig var um síðustu helgi, að við hjónin vorum svona á rólegu nótunum á sunnudagsmorgninum. Hmm, eins og stundum áður. Fröken bara með meðfærilegasta móti, á sjálfsbjargarstillingunni frammi og við leik inni hjá sér. Fer svo að lengja eftir lúnu hjónunum á fætur og er eins og snarofvirkt barn með sinnep í rassinum, endasendist um allt, upp í hjá okkur og alls staðar og svo kom að við fórum að spyrja okkur hvort þetta væri ekki óvenju mikið stuð. Mummi spurði svona til að kanna landið hvort hún hefði nokkuð verið að borða súkkulaði og sú stutta neitaði því staðfastlega en upp hrökk einhver játning um kaffibaunir. Foreldrarnir hrukku í kút og gengu á hana og þá játaði hún á sig þá sök að hafa borðað eina kaffibaun. Þannig er sumsé að við eigum súkkulaðihúðaðar kaffibaunir í barskápnum fyrir vel valin tækifæri og þarna fór ekki á milli mála að stutta meinti sem sagt að hún hefði komist á barinn. En aðeins ein baun var það í játningunum. Við kíktum á skálina – vorum nú sammála um að þær hefðu nú verið góðu fleiri en sem því man! Fröken sem sagt á góðu koffeinkikki og var það raunar fram eftir degi. Needless to say – skálin hefur verið tæmd og innihaldið geymt á betri stað.
Markmiðinu náð…
…nú tekur óvissan og tómarúmið við. Óstaðfestur tími segir klukkutími og tólf/þrettán mínútur. Ég gleymdi nefnilega að starta klukkunni minni þangað til í Skipagötu!
Menningarmolar og fleira
Aldrei hef ég lifað jafn aktívu félagslífi og undanfarið eða það komu amk nokkrir dagar þar sem ég var nánast ekkert heima hjá mér. Fór til að mynda á tvenna tónleika í Laugarborg með fimm daga millibili. Fyrst á Bergþór Pálsson, með tengdamömmu og mátti vart á milli sjá hvor okkar var skotnari í honum, hann var náttúrulega yndislegur. Söng eins og engill og gantaðist þess á milli. Síðari tónleikarnir voru hins vegar á Mannakorn og þá með Auði spænskukennaravinkonu minni og Kristínu dönskukennaravinkonu minni. Svoldið nýtt move hjá mér að fara á þá, það kom til að mynda verulega flatt upp á Mumma að ég hefði þennan áhuga, en fyllilega þess virði. Öll fallegu lögin þeirra gera ferð að sjá þá algjörlega þess virði.
Í liðinni viku fór ég líka á LC fund. Sá var reyndar nokkuð tíðindalaus og helst til ótíðinda að það var krimmakvöld á sama tíma. Krimmaklúbburinn lá alveg niðri síðasta vetur en nú á að reyna að reisa hann úr öskustónni. Mér til mikillar gleði var fundartímanum breytt svo ég geti verið með. Næst á að lesa finnskan krimma sem ég man ómögulega hvað heitir. (Í raun þyrfti ég að koma með langt og mikið bókablogg, því slíkar bækur hef ég lesið í sumar en vonlaust að ég nenni því, fyrst það er ekki orðið enn.)
Nú svo var ég í allsherjarafmæli hjá Þóru í konuglega danska félaginu og danska kvikmyndaklúbbnum á laugardaginn var, (afmælisdeginum hans afa). Það var allt hið einkennilegasta þar sem ég þekkti afar fáa og hafði engan til að eiga sem móðurstöð. Það tókst samt alveg.
Framundan er matarboð hjá Kristínu á laugardagskvöld. Ég verð spræk eftir að hlaupa 10 kílómetrana. Jamm það er nefnilega að koma að því. Ég er pollróleg. Hljóp 9 kílómetra á laugardaginn eins og ekkert væri. Reyndar á óratíma en það voru líka alls kyns brekkur til að tefja mig og gera mig þreytta.
Alvaran hefst á ný
Fyrsti vinnudagurinn í MA í dag. Fundur í morgun hjá þeim sem eru að fara að kenna á nýrri stoðlínu og verða daglegir út vikuna. Skrýtin tilfinning að koma í vinnu. Út af mínum heilu fimm vikum í vor var ég ekki kynnt sem nýr kennari. Svoldið skrýtið, ég stórefast um að allir viti á mér deili. Jafnframt ótrúlega þægilegt, maður á einhvern veginn svo heima þarna, þó svo það sé langt í land með að fara að verða afslappaður og eins og maður á að sér. Ég reyni nú samt inni á milli. Hlakka bara óskaplega til vetrarins. Fékk stundatöflu sem var bara alls ekki hræðileg. Götóttari en ég er vön en styttra fram á daginn en var 🙂 Ýmis kunnugleg nöfn í nemendahópunum, kennarabörn úr VMA og Síðuskóla (og Glerárskóla, er að fara að kenna frænku hans Hjörvars). Verð umsjónarkennari í 1. bekk með þessari hér, (ekki það að hún sé virkur bloggari) og það finnst mér lofa góðu.
Til hamingju með daginn kæri mágur! Hvenær verður svo haldið upp á fertugsafmælið? Það er ekki seinna vænna…