Sagan af sukkaranum

Hér kemur ein af Strumpunni. Þannig var um síðustu helgi, að við hjónin vorum svona á rólegu nótunum á sunnudagsmorgninum. Hmm, eins og stundum áður. Fröken bara með meðfærilegasta móti, á sjálfsbjargarstillingunni frammi og við leik inni hjá sér. Fer svo að lengja eftir lúnu hjónunum á fætur og er eins og snarofvirkt barn með sinnep í rassinum, endasendist um allt, upp í hjá okkur og alls staðar og svo kom að við fórum að spyrja okkur hvort þetta væri ekki óvenju mikið stuð. Mummi spurði svona til að kanna landið hvort hún hefði nokkuð verið að borða súkkulaði og sú stutta neitaði því staðfastlega en upp hrökk einhver játning um kaffibaunir. Foreldrarnir hrukku í kút og gengu á hana og þá játaði hún á sig þá sök að hafa borðað eina kaffibaun. Þannig er sumsé að við eigum súkkulaðihúðaðar kaffibaunir í barskápnum fyrir vel valin tækifæri og þarna fór ekki á milli mála að stutta meinti sem sagt að hún hefði komist á barinn. En aðeins ein baun var það í játningunum. Við kíktum á skálina – vorum nú sammála um að þær hefðu nú verið góðu fleiri en sem því man! Fröken sem sagt á góðu koffeinkikki og var það raunar fram eftir degi. Needless to say – skálin hefur verið tæmd og innihaldið geymt á betri stað.