Mánaðarskipt færslusafn fyrir: október 2006

Hámenningarleg færsla

Það taldist tvennt til tíðinda um helgina. Annars vegar tókum við videó, sem hefur ekki gerst í háa herrans, hins vegar fórum við í bíó.

Á föstudagskvöld sáum við Da Vinci code, hún kom mér þægilega á óvart, sérstaklega vegna þess að ég hafði frekar litlar væntingar til Tom Hanks. En hann fór óvenjulega lítið í taugarnar á mér. Ég náði að vaka nánast algjörlega yfir myndinni sem er líka vel af sér vikið, ég meina ég þurfti að vaka til vel rúmlega 11. Það er erfitt á föstudagskvöldi, nema maður sé beinlínis í djammi.

Í gær fórum við í miðdagsbíó, svona til að þurfa ekki að redda enn einni kvöldpössuninni (við vorum m.a. að spila á laugardagskvöld). Sáum Mýrina eins og allir hinir. Ég var gríðarlega ánægð með stemminguna, fullt af fullorðnu fólki í bíó og þrjár kynslóðir saman og svona. Það er alltaf gleðilegt og minnti mig á bíóferð sem ég fór með ömmu hérna í denn á Karlakórinn Heklu. Það er skemmst frá því að segja að ég var líka býsna ánægð með Mýrina. Þó ekki alveg. LandRóverinn hans Erlends angraði mig mikið, sem og slétta og fína lopapeysan hans og Ingvar náði mér ekki alveg á sitt band, þó svo hann væri vissulega skárri en ég þorði að vona. Ég mun að minnsta kosti ekki hugsa um hann þegar ég les næst um Erlend.

 

Nú vantar mig typpabúning

Fékk tilboð í einum bekknum að ef ég mætti í búningi á Hrekkjavökunni í næstu viku yrði mér boðið á Greifann. Gerði þau mistök að segja frá því þegar ég mætti á furðufatadag í Síðuskóla í typpabúningnum hans Helga og það vakti svo ómælda lukku að tilboðið einskorðaðist við að ég mætti í honum. Þeim fannst fyndið þegar ég sagði þeim að einn nemandi hefði mikið spáð í hvað ég væri að pæla með þessum ljóta sveppabúningi!

Borgarferð með meiru

Ferðin í borgina reyndist ótrúlega góð og furðu lítið stressandi miðað við það sem ég hafði búist við. Réði þar líklega mestu að búðarferðir voru fáar og IKEA ekki eins yfirþyrmandi og ég átti von á. Náðum tveimur útskriftarveislum, öðrum með slíkum tertum að það varð líkamanum nánast ofviða að borða allt sem ég lagði á hann. Að minnsta kosti tók ég væna hvíld á eftir. Sú hin síðari svona jarðbundnari með framboðið af kökum, blessunarlega, því annars hefði ég ekki viljað vera að keyra heim. Sú stutta sýndi enn og sannaði að Reykjavíkurþol hennar er lítið, hún vildi fara heim strax á öðrum degi. Átti þó góðar stundir, meðal annars með frænkum sínum Hrefnu og Unu í tvígang. Henni leist svona ljómandi vel á nýju klippingu frænkunnar og pantaði sér svoleiðis. Ég lét eftir henni að fara í klippingu en það var nú ekki á þeim róttæku nótum sem hún hafði hugsað sér. Ég fórnaði (nota bene – ég) þó miklu hári af henni.

Síðan eru bara haustannir miklar. Í næstu viku á nefnilega að vera miðannarmat í skólanum og nú er það bara vinna á hverju kvöldi. Ritunarverkefni, logbækur, spóluverkefni. Ég verð til viðtals eftir mánaðarmót.

Styttist í borgarferð

Fjölskyldan ætlar að smella sér í borgina um helgina. Alls kyns tilefni, bera kannski hæst tvær útskrifir úr HÍ en síðan eru það alls kyns nýlegheit sem á að berja augum. Íbúðir og börn þar helst að telja. Veit ekki hvort maður leggur í IKEA viðbjóðinn, eitthvað segir mér að það dugi ekkert minna en dagur í það. Sem betur fer er stutt í utanlandsferð svo maður þarf að minnsta kosti ekkert að stressast í búðir. Mummi er að vísu búinn að setja mér afarkosti um innkaup í útlöndum – eitthvað að meina að égverði að velja á milli þess að láta sprauta eldhúsinnréttinguna eða eyða eins og mér einni er lagið. Ég hlýt að geta komist að einhverju samkomulagi. Föt eru lífsnauðsyn, það má ekki gleymast 🙂

Mikið afrek vannst í gærkvöld. Fyrsta einmenningshlaupið mitt síðan í ágúst (og annað hlaupið frá því að 10 kílómetrarnir unnust – hefði eiginlega þurft að demba inn myndinni af mér síðan þá þar sem sést hvað ég er nálægt dauðans dyrum) sennilega einir fimm kílómetrar eða rúmlega það. Robbie kom sterkur inn í hlaupin með mér. Náði að auki að gera tvær armbeygjur – á tánum – þegar ég kom heim! Ég er ókrýndur þrekmeistari, það er ljóst.

 

Ef ég hefði efast

… um að byrja að kenna í MA; var að koma úr söngsal, mmmm, það var ótrúlega indælt að upplifa það aftur. Lagavalið kannski eilítið breytt í sjálfum söngsalnum, gang-söngurinn var nú klassískur. Kannski hefði fjölbreyttari hópur tekið þátt í gamla daga ef „Fjöllin hafa vakað“ hefði líka verið tekið þá? Lögin öll í eldri kantinum, Nína, Hey Jude, Eftir gresjunni… og svo endað á skólasöngnum og þá fékk ég gæsahúð. Ahhhh.

Annars var stór dagur í dag. George Michael miðarnir komnir í hús 🙂 Langar mest að hafa passann bara alltaf um hálsinn. Fengum meira að segja ógurlega gjöf með. Hliðartösku undir vín, eitt hólf fyrir léttvínsflösku (því miður tómt) og eitt með glösum og tappatogara. Að sjálfsögðu merkt goðinu 😉

Útskrifuð sem þriggja og hálfs

Jæja, Strumpan fór í síðari hluta þriggja og hálfs árs skoðunar í morgun. Hafði hitt Pétur, sinn góða vin á mánudag og hann átti varla til orð yfir hvað hún var þæg og samvinnuþýð, fannst læknaneminn sem hann hafði sleppa full ódýrt.

Sú stutta var býsna samvinnuþýð í morgun, þó ekki alveg, því hún var alveg á móti því að láta mæla eitt auga í einu og fór í langan baklás og var ekki til neinnar viðræðu, alveg sama þó fögur orð Péturs væru rifjuð upp. Þetta hafðist þó að lokum.

Öll próf gengu að sjálfsögðu vel en ég get samt ekki að því gert að mér finnst hluti þess vera afar asnalegur. Ég tala til dæmis lítið við hana í þolmynd! verð kannski að bæta úr því, en hún var beðin að sýna strákinn sem var klipptur af stelpunni og þá var mynd af strák að klippa stelpu og stelpu að klippa strák! Duh. Strumpan féll kylliflöt í þessa gryfju.

Eins fékk hún „mínus“ fyrir að kalla rimlarúm bara rúm en ekki barnarúm. Wow, ekkert smá lélegt. Hins vegar var hún bara látin telja upp í sjö og benda á hvar væru tveir hlutir og hvar þrír hlutir. Ég fékk eiginlega kjánahroll yfir hvað er mikil ósamræmi eða þannig.

Að lokum mátti hún velja sér verðlaun, eins og á mánudaginn og hún valdi sér sömu verðlaun í dag. Það er lítið sem þarf til að gleðja hana, hún valdi sér blöðru í bæði skiptin! Átti þó mjög erfitt val í dag, þar sem einnig kom til greina að fá háhyrning sem hefði sómt sér vel í baðið og hún vildi helst fá hvoru tveggja en sættist á að fá blöðru. Lærdómurinn er sá, að stundum fer maður offari í því hvað þarf til að gleðja börnin manns og kaupir miklu meira en þarf og venur þau þannig við að gleðjast ekki nema yfir miklu. Maður verður heldur betur að passa sig með þetta.

 

Krimmakvöldið

Fyrsti formlegi hittingurinn í gær og bókin Rokkað í Vittula rædd. Mæli með henni, menn voru almennt sáttir en Mummi getur vottað að mér leist vel á hana, að minnsta kosti fékk ég reglulega þörf fyrir að lesa úr henni fyrir hann. Klúbburinn hefur margfaldast, það voru fimmtán í gær og ekki allir mættir. Hinir ýmsu starfsmenn Akureyrarbæjar bæst í hópinn. Kannski í það mesta, við vorum hins vegar orðin leiðinlega fá og gott að fá smá fjölbreytni í hópinn. Næst á að taka fyrir bæjarkrimmann, Tíma nornarinnar eftir Árna. Ég álpaðist til að taka að mér smá upphafsumfjöllun svo ég neyðist til að lúslesa hana. Verður fróðlegt.

Stuttlegt af mér

Það hefur enn ekkert orðið af því að birta ferðasöguna úr MA ferðinni. Skemmst frá því að segja að ferðin var afar góð. Ég verð eiginlega að ruslast til að setja inn mynd eða tvær, það er að minnsta kosti ljóst að ég hef uppgötvað nýtt túristattraktion á Norðurlandi.+

Svooo mikið að gera að ég er varla heima hjá mér á kvöldin. Þessa vikuna er það krimmaklúbbur annað kvöld – bókin Rokkað í Vittula og skálaferð með umsjónarbekknum frá miðvikudegi til fimmtudags. Þannig að það þarf ekki að lesa reglulega þessa dagana. Ég verð áfram löt. Samt – og þetta telst til tíðinda, ég er komin með fartölvu, loksins loksins, þannig að það er aldrei að vita nema ég sjáist á msn eða sé almennt í ágætu tölvusambandi 🙂