Mánaðarskipt færslusafn fyrir: nóvember 2006

Venni Páer

Kemur bara nokkuð sterkur inn. Það mátti vel flissa að undarlegum húmornum. Útlendingar, athugið hvort þetta sé á netinu. En það er óþarfi að slá mig með gullhamri.

Annars verð ég að nefna að það var auglýst eftir ketti í leikprufu í Dagskránni í gær. Það var beðið um tvo, annars vegar svartan og hins vegar bröndóttan. Verð að viðurkenna að ákveðinn bröndóttur köttur á mínu heimili stökk upp í hugann. Ég ákvað samt að nenna ekki að verða einhver Hollywood mom. Veit reyndar ekki til hvers átti að fá kött, ég hefði amk ekki viljað hafa hann í sýningum um hverja helgi, enda engum ketti greiði gerður með því. En ég á ekki erfitt með að sjá hann slá í gegn.

Talandi um rúllupylsur…

Þessa dagana hvílir á mér bölvun piparmyntubrauðanna. Ég held að forsvarsmenn Freyju hafi laumað einhverju dópi í uppskriftina því nú er svo komið að það er enginn dagur án piparmyntubrauðs. Sennilega hafa þeir horft á „So I married an Axe Murderer“ og fengið hugmyndina frá samsæriskenningum pabbans um Colonel Saunders – oooohhh you’re goona eat my chicken… Eða ég lent í einhverri dáleiðslu og verið heilaþvegin „must eat peppermintbread“

Kannski ég ætti bara að finna mér grænan þröngan kjól og mæta á árshátíð sem piparmyntubrauð 😉 Fá Freyju sem styrktaraðila og fá amk kassa að launum.

Styttist í árshátíð

Jamm, það eru tveir dagar í 1. des. og andrúmsloftið í skólanum farið að snúast æ meira um stúss í kringum árshátíðina. Stelpurnar tala varla um annað en kjóla og hár og þetta smitar svo út frá sér að í dag var þetta umræðuefni kennaranna í löngu. Gekk svo langt að ákveðinn íslenskukennari bað okkur kennslukonurnar að gæta að fatavali okkar, við ættum ekki að skyggja á stúlkurnar í 4. bekk. Rifjaði upp í því samhengi kjólinn sem Sonja Sif  var í á sinni fyrstu árshátíð, en hann átti að hafa verið úr bláu stroffi sem náði svona frá miðjum brjóstum og að miðjum rassi eða svo – þannig að vesalings strákarnir í 4. bekk gátu ekki af henni augun tekið. Þetta vakti mikla kátínu og gott ef Sonja neyðist ekki til að koma í kjólnum aftur til að afsanna þessa mynd sem var dregin upp. En þið sjáið að það er ákveðinn vandi á höndum, maður þarf að vera huggulegur án þess að vera stórglæsilegur, hvað þá, god forbid, kynæsandi.

Á þessum nótum, ég er að hugsa um að fara í fræga Filippu K kjólinn minn (kannski kemur þá mynd af mér í Séð og heyrt – Hafdís, 33 ára, geislar af glæsileika í kjól frá Filippu K) en ég þarf hins vegar að athuga sem fyrst hvort ég sé nokkuð orðin eins og rúllupylsa í honum og finna plan B ef svo er. Hann gefur nefnilega ekkert sérlega eftir. Nú eða finna svona nærföt eins og eru alltaf í „How to look good naked“ – þau virðast minnka mann um margar stærðir 🙂

Ég og Georg

Ég veit, þetta var löng og erfið fæðing. Sumpart vegna þess að mig óar við að setja eitthvað niður á blað af ótta við að það verði of langt og hins vegar vegna þess að ég náði mér í klósettpest og lá (og var á klósettinu) á miðvikudag og fimmtudag og var alveg orkulaus allan föstudaginn líka.

En sum sé. Ferðin var ofur. Svo langt fram úr öllum væntingum að það er nánast óhugsandi. Að undanteknum ferðalögunum sjálfum. Ég veit ekki hvað ég hef gert til að verðskulda þessi Danmerkurferðar-álög, ef það eru ekki veikindi, þá er vesen á flugi. Við fórum seint og síðar meir af stað á föstudag, eða um 11. Þess vegna var lítið að gera þegar við komum til Köben. Við tékkuðum okkur inn (hótelið var bara dásamlegt, ótrúlega smekklegt og æðislega staðsett) og löbbuðum niður á Strik og hittum Önnu Steinu og Martin. Fórum á kaffihús í Illum og röltum síðan bara í rólegheitum tilbaka. Litum á Önnu og Martin, þau voru með enn flottara herbergi en við og hvíldum okkur svo um stund. Um kvöldið fórum við út að borða á mexíkanskan stað, sem við fórum líka á í fyrra, hann er á götu samsíða Strikinu, alveg ágætur. Nema hvað þjónustan fór alveg með mig. Þegar ég pantaði bað ég um syvogfirs og þjónustustúlkan hváði og endurtók eitthvað allt annað á ensku, ég neitaði og endurtók og þetta gekk svona um stund þar til hún rambaði á rétta tölu. Þá var fokið verulega í mig yfir því hvað henni gekk illa að skilja dönskuna mína, sem er engan veginn svona léleg, en síðan fattaði ég að hún var reyndar ekki dönskumælandi og þá skammaðist ég mín pínu! Eftir þennan mat röltum við heim á hótel, spjölluðum og fórum í bæl.

Næsta dag – aðal daginn! – fórum við örlítið niður á hliðargötuna Vestergade, þar sem sá mexíkanski er, því þar höfðum við séð dásamlega leikfangabúð. Fórum og flippuðum svolítið í gjafakaupum handa dótturinni! en höfðum þetta frekar stutt því það var rigning og við ákváðum að fara fyrst í Fields og enda á Strikinu og vona það besta með veðrið. Það var eins og venjulega fínt í Fields nema hvað það var ekki þverfótað fyrir Íslendingum í HogM!

Við ákváðum að fara aftur á Strikið, en gerðum þau mistök að fara fyrst á kaffihús og það þýddi að flestar búðir voru búnar að loka (kl. 3) þegar við komum loks þangað. Röltum samt slatta um, alltaf finnur maður nýjar götur, alveg merkilegt. Fór í góðu barnabókabúðina sem ég fer alltaf í á Købmagergade og keypti tvær Barbapapabækur í viðbót handa Strumpu, þær koma síðan í skóinn.

Eftir hvíld og skönnun á strætómöguleikum fórum við út að borða á ítalskan stað, sá var alveg ljómandi ágætur. Tókum strætó á Parken, frá Vesterport, síðasta stöð fyrir Hovedbanen og það reyndist gáfulegt. Það var súrrealískt að vera í strætó og hvar sem stoppað var, hrúgaðist inn fólk og allir á leið á sama stað. Enda hætti hann brátt að taka inn farþega og gat ekki keyrt á stoppistöðina heldur henti öllum út á Trianglen. Ég vissi ekkert almennilega hvar við vorum en það þurfti aldeilis ekki að stressa sig yfir því, maður fylgdi bara mannhafinu. Við höfðum tekið strætó svona korter í sjö og vorum komin á Parken nánast klukkutíma síðar. Að minnsta kosti inn á gólf. Við græddum ekkert á fínu pössunum okkar en tróðumst bara eins og við gátum inn á gólfið. Það var algjörlega fáránlegt að vera þarna, þvílíkur fjöldi og sætin náðu bara endalaust upp í loft! Við náðum ekkert að troðast mjög langt, vorum kannski svona 1/3 gólfsins frá sviðinu og því miður of stórir karlmenn framan við okkur. Biðum í svona 40 mínútur þangað til HANN kom á svið. Og vávává. Með því að teygja sig í rétta átt sá ég hann koma inn, syngjandi „Waiting“. Algjörlega ólýsanlegt. -But you once said there’s a way back for every man, so here I am, don’t people change here I am, Is it to late to try again? HERE I AM!“ Oh yes you are. Svo sætur, svo sætur (þökk sé risaskjáunum fékk maður að njóta þess vel og vandlega, því hann naut sín nú ekki beint í þessari fjarlægð, hins vegar fékk maður reality kikkið af því að kíkja á hann á sviðinu.

Fyrri hlutinn var klukkutími og leið eins og svona þrjú lög, bara fáránlegt. Hann endaði á Shoot the dog og þá kom uppblásið dúkka af George Bush með „the dog“ að sjúga lillann. Ég hef aldrei fílað þetta lag sérstaklega en boy oh boy, þetta var ótrúlega flott.

Síðan tók hann hlé í tuttugu mín. Við notuðum tækifærið og tróðumst aðeins framar og það reyndist vera mjög gáfulegt, amk í mínu tilfelli þar sem ég sá miklu betur á sviðið. Hann hélt svo áfram uppteknum hætti eftir hlé og það leið jafnvel enn hraðar. Ég hringdi hingað og þangað, fyrst í Nonna í „I’m your man“, síðan í Kristínu í lok „Faith“ en hún fékk reyndar aðallega klappið á eftir. Síðan var hann klappaður upp og kom og söng Careless Whisper. Þá hringdi ég í Árnýju og hún fékk að vera með allt lagið. Það var ekkert nema unaður. Ýmis lög með Georg eru óneitanlega betri og flottari eennnn þetta er samt lag laganna. Ekki síst þennan dag, þetta lag situr mjög í mér síðan 84. Ég söng með af algjörri innlifun. Hann var síðan klappaður upp aftur og söng Freedom, þá hringdi ég í Auði en það var bara smá-símtal.

Bestu lög kvöldsins, að Careless Whisper undanskildu voru Father Figure, það var svo kúl að klappa með bassatrommunni í upphafi lagsins og að sjálfsögðu að syngja með og síðan Everything she wants, af því að það voru allir í svo góðu stuði. En ég var ekki að fíla Star People neitt spes frekar en venjulega. Von brigði líka að ná ekki í bol, en það var bara svo geðveik röð.
Við fórum sæl heim (við Anna náttúrulega í algjöru blissi), með allri hrúgunni, svo við vissum ekki beint hvað var best að gera til að komast heim. Náðum strætó eftir svona klukkutíma, niður á Nordhavn lestarstöð og þaðan heim. Alls staðar fólk með bros á vör eftir æðisgengna tónleika. Lenti meira að segja á spjalli í lestinni, það var maður sem var að spekúlera hvað allt þetta unga fólk væri að drífa sig í bæinn.

Daginn eftir fóru Anna og Martin snemma heim. Við tékkuðum okkur út um 12, fórum og versluðum í aðalverslunarmiðstöðinni – Hovedbanegården, ég keypti m.a. nýja diskinn með GM. Borðuðum á Hard rock, það tók óratíma. Gengum upp á Strik og nágrenni, versluðum lítillega þar sem var opið og nutum þess svo að ganga um nágrennið, hjá Christiansborg, Bókasafninu og þar í kring, þar hef ég ekki gengið síðan 1991. Tókum lest á Kastrup, okkur var að vísu hent út á miðri leið af því að ég klippti of lítið, en það reddaðist allt. Síðan tók við sólarhringsferð heim til Akureyrar. Flugi frestað og svo aflýst, aukanótt í Köben, flug með Icelandair heim næsta dag og síðasta vél sem flaug norður þann daginn! Frábært að hitta Strumpu aftur, sem hafði samt verið í góðu yfirlæti á meðan.

Hlustaði síðan á diskinn í gær, meðan við spiluðum (skrýtna útgáfu af Catan) og það var bara unaður. Algjör endurupplifun. Jamm, ég mun lifa lengi á þessu.

Það er að bresta á

Þá er GM bara rétt handan við hornið. Alls kyns óvissa og leiðindi reyndar, skítaveðurspá svo maður er stressaður með allt flug, bæði suður og út. Ég í vondu standi, öll ein stífla, svo ég heyri ekki og fer sparlega með röddina af hræðslu við að hún fari. Enn hef ég þokkalega sjón, svo það er eins gott að maðurinn er guðdómlega fallegur. Ég hef það þó altént til að hugga mig. Hefði samt getað ímyndað mér skemmtilegra stand á sjálfri mér fyrir ferðina. Hins vegar geta tónleikarnir ekki klikkað því nú sækja þeir að mér í draumi og valda mér alltaf vonbrigðum!

Fríið mikla

Jamm, þá er hafið haustfrí, ja, eða vetrarfrí. Notaði ég tækifærið og svaf til ellefu og vel það í morgun og hef verið þreytt síðan. Mér fannst ég alla vega eiga innistæðu fyrir því, enda vakað óvenju langt fram eftir alla þessa viku, suma daga jafnvel fram yfir miðnættið!

Fórum í leikhús í gær, hjónin. Mér hafði þó tekist að týna árskortinu en það leystist farsællega. Þetta var sýningin Hr. Kolbert. Án þess að spilla neinu held ég að mér sé óhætt að fullyrða að þetta er verk sem ýtir dálítið við manni, ýmist fyndið eða sorglegt og gengur reglulega fram af manni. Biskupssonur sem leikur í öllu hér þessa dagana, þetta er bara eins og að horfa á danska bíómynd, kom mér reyndar skemmtilega á óvart með frekar hófstilltum leik. Mér hefur alltaf fundist hann vera með sömu fíflataktana í öllu sem hann hefur gert.

Plön helgarinnar eru lítil, þó kannski að fá Hönnu og Ármann í mat annað kvöld. Það er þó óráðið. Ég er ein heima í augnablikinu, ætla að horfa á sjónvarp eftir því sem svefnheilsa endist til. Verð líka að fara að lesa Tíma nornarinnar því ég á víst að geta sagt frá henni í krimmaklúbbi á þriðjudag.

Getiði svo hvað eru margir dagar í GM? Jamm, bara átta dagar. Þetta er allt að koma 🙂