Árshátíðarfærslan

Þá er fyrstu (eigum við ekki að vona að þær verði fleiri) kennslukonu-árshátíðinni minni lokið. Það er skemmst frá að segja að hún olli engum vonbrigðum. Fatakrísan endaði ágætlega, það er að segja, Filippa K komst utan um mig en reyndar var kjóllinn flegnari en mig minnti. Til að gæta alls velsæmis hafði ég sjal með, gladdist þó þegar kom á staðinn og sá að ég var ekki með lengstu brjóstaskoru kennslukvennanna. Maturinn kom á óvart – ótrúlegt en satt – að þessu sinni ekki boðið upp á moðsteikt lamb, heldur hlaðborð með hinu og þessu. Og dásamlegt að vera kennslukona og fá að fara strax að fá sér í gogginn, grey fyrstu bekkingar sem eru neðstir í goggunarröðinni máttu hafa sig alla við til að komast líka í ábót. Skemmtiatriðin voru mjög skemmtileg, alls kyns tónlistaratriði, dans og „MA skaupið“. Að ógleymdum öllum ræðunum, minni karla og kvenna, ræða skólameistara, formanns Hugins, heiðursgests (sem var Sigmundur Ernir, með MA-pepp-ræðu-ársins, það var vel smurt á hvað skólinn væri dásamlegur og reyndar, eins og rétt er, benti hann á að það væri nóg eftir enn – með hans orðum ‘you ain’t seen nothing yet’). Síðan var Jagúar að spila, weeelll, ekki alveg kannski við mitt hæfi. Ég dansaði smá með villtum samkennslukonum mínum í upphafi en eftir þrjú lög, sem voru öll eins, gafst ég upp. Hafði með naumindum sloppið við að gera mig að algjöru fífli, við dönsuðum nefnilega við sviðið, ég með rassinn í það og í stuðlaginu „Disco Diva“ ætlaði söngvarinn að fá góðar undirtektir og lætur hljóðnemann síga niður, beint fyrir framan munninn á mér. Blessunarlega var ég ekki að syngja með…

Við fórum heim um hálf eitt, hjónin, ljótt að segja frá því. Ég tímdi bara ekki að vera lengur á fótum af því að það var laufabrauð framundan næsta dag og mig langaði að ná að „sofa út“ eða amk eins mikið og hægt var.

Laufabrauðsgerð fór vel fram. Ég skar reyndar ekki út svo mikið sem eina köku, næ því væntanlega heima hjá tengdó. Mummi og Eyþór sáu alfarið um útskurð, Sóley fékk aðeins að prófa en var áhugasamari um að breiða út og fékk að grípa í það, var í raun alls ekki óefnileg við það. Við fórum svo í bæinn á eftir að fylgjast með upptendrun á jólatré, reyndum að mæta seint og síðar meir en það dugði ekki til, við þurftum að standa undir ræðum og alls kyns atriðum áður en aðalnúmerin mættu. Ótrúlega óbarnvæn dagskrá. Sennilega verið að venja börnin við leiðinlegar ræður strax. Strumpan var kát yfir þessu en komst svo sem ekki í neitt návígi við sveinkana. Hún hafði líka smá ranghugmyndir áður en við lögðum íann, var eiginlega sannfærð um að þeir myndu vera með pakka handa sér, það þurfti aðeins að draga úr væntingunum.

Horfðum svo í rólegheitum á mynd í gærkvöld, Kiss kiss bang bang, ágæta ræmu en skrýtna á köflum. Eilífar þakkir fyrir VOD – gott að þurfa ekki út úr húsi. DVD spilarinn nefnilega í fýlu yfir að það gleymdist að slökkva á honum á föstudag. Það fer illa í hann. Og illa í mig reyndar. Ömurlegar þessar nútíma græjur sem hafa líftíma upp á tvö ár eða eitthvað. Hann er sem sagt búinn að vera í þessu ástandi í svona eittoghálft til tvö ár. Ég auglýsi eftir laghentum raf-manni (sem hefur ekki svívirðilega mikið að gera) sem er til í að kíkja á gripinn. Það er nefnilega þannig að ef spilarinn fer, nýtast hátalarnir ekkert. Ógeðslega drasl.