Nú var gott að eiga súkkulaði

Maturinn í skólanum er alla jafna góður, oft einhverjir girnilegir grænmetisréttir, gjarnan eitthvað sem kemur ekki endilega við sögu á matmálstímum heima. En í dag varð heldur betur misbrestur á. Okkur var boðið upp á súpu, sem samanstóð af vatni, avókadó og cashew hnetum. Allt eitthvað sem er ágætt svona eitt og sér. En það kom sumsé í ljós að þessir hlutir ganga ekki saman ;). Sjaldan hef ég slíkt ómeti smakkað. Og eftirbragðið var ekki betra heldur en ámeðanbragðið svo ég gladdist mjög að luma á einu piparmyntubrauði. Er í þessum töluðu orðum að vinna að því að losna við óbragðið úr munninum. Átti það nota bene skilið, því ég kláraði heilan disk, Þorlákur sem stærði sig mjög af úthaldi langhlaupara gafst eftir 10 og hálfan kílómeter að eigin sögn og fór yfir í skyrið. En þetta var amk vinsælt umræðuefni og gaman að fylgjast með hinum borða.