Ebay æði

Þá er fyrsta varan frá Ebay alveg að koma í hús. Fékk þennan leiðindamiða frá tollinum í dag. Já þið megið skoða póstinn minn. Sendið mér hann bara!!

Ég tók sem sagt smá kaupæði á ebay. Allt fyrir dóttur mína. Ef allt gengur að óskum mun hún eftir þetta eiga prinsessukjóla og hárkollur og Sollu stirðu búning. Þetta verður líklega afmælisgjöfin í ár, ekkert af þessu hugnast mér amk sem öskudagsbúningur, nei, ég er ánægðari með Línu langsokk sem áhrifavald í lífi hennar. Ég klikkaði reyndar á einu smáatriði í kaupunum. Þegar ég keypti prinsessukjólana sem koma í einhverri ógurlegri kistu, láðist mér að athuga flutningskostnað fyrir herlegheitin, og úffpúff, það fór summa í það. Héðan í frá mun ég muna að skoða þann kostnað.

Í öllu búningaæðinu fyrir dóttur mína var ég komin á fremsta hlunn að panta alls kyns búninga handa mér. Haldiði ekki að Mummi hefði orðið glaður ef ég hefði allt í einu skartað fínum Leiu-búningi? (þó ekki sá gull-litaði…) Eða verið allt í einu með sítt ljóst hár? Ég sá það alveg í hendi mér. Hætti þó við, einhvers staðar verður maður víst að draga línurnar.