Helgarblogg

Uhh, föstudagskvöldið var þannig að það er varla hægt að játa það. Horfði á ömurlegt sjónvarp allt kvöldið, var að fá fyrstu merki um pest og ekki í neinu stuði fyrir eitt né neitt (er með svona asnalegt kvef sem nær frá augum niður í nef, en blessunarlega hef ég þokkalegasta bragðskyn og litlar hósta- og hálspestir).

Hins vegar buðum við fólki (Auði og Elísu) í mat á laugardagskvöld í heimagerðar pizzur, Euroforvision og sænskt vídeó. Það var vellukkað, góður matur og félagsskapur. Euro svona frekar dapurt samt. Hefði viljað fá doktorinn sterkari inn, hann bar að vísu höfuð og herðar yfir rest en í ljósi dvergvaxtarins þar, þá er það lítið afrek.  En þetta þýðir það að Eiki minn er ekki með mikla samkeppni, hann er öruggur til Finnlands.

Í gær fórum við fjölskyldan í bíó á Charlotte’s web. Hún var með miklum ágætum, nú langar dóttur mína mest í grís sem gæludýr (sem betur fer ekki köngurló) og ég er ekki frá því að ég skilji hana vel. Strumpan var með þægasta móti í bíó, sat lungann úr myndinni svo þetta er allt á uppleið.