Fer hamförum

Það er frekar langt síðan ég var svona dugleg að blogga. Hvort það er vegna mikilla frétta af samkvæmis- og einkalífinu eða léttis að geta enn á ný hangið í tölvu, ja, já…

Í gær var sumsé gífurleg menning í gangi. Við fórum fyrst hjónin á Amtið og hlustuðum á Úlfhildi Dagsdóttur flytja fyrirlestur um dramb, í röðinni um dauðasyndirnar. Misstum af þeim fyrsta í síðustu viku en drifum barnið í pössun í gær. Gaman að því að gera eitthvað aðeins út fyrir normið. Fyrirlesturinn sem slíkur ekkert spes. Hún tók afar þröngt á efninu, svona til að tengja það einhverju öðru sem hún er að vinna að og fjallaði bara um dramb hins brjálaða vísindamanns. Ég náði engann veginn öllum tengingum hennar við hina og þessa vísindamenn bókmenntanna og bíómyndanna en hafði svo sem gaman af ýmsu. Fyrirlesturinn bauð ekki upp á miklar pælingar enda urðu umræður afar litlar og dræmar, því miður, því það er hægt að velta sér vel upp úr efninu. En við ætlum ekki að gefast upp. Í næstu viku ætlar Sigurður Frændi Minn Ólafsson að tala um óhóf (minnir mig…) og ég hef miklar væntingar.

Það var skammt stórra högga á milli því svo var það leikhúsferðin. Og ég verð að segja að ég er orðin afar þreytt á að fara í leikhús til að hlusta á fólk öskra. Þetta er annað stykkið í röð sem er þannig. Sýningin var reyndar ekki alslæm en svívirðilega subbuleg og blóðug. Ég hrökk oft í kút og aumingjans sérdeild VMA var meira og minna í hnút eða hoppum og oft skemmtilegra að horfa á þau en leikritið. En kettirnir stóðu sig vel og eiga heiður skilinn fyrir leiksigur 😉