Rétt si sona

Heimilislífið markast þessa dagana afar mikið af væntanlegu afmæli sem haldið verður upp á næsta sunnudag. Stefnir í metfjölda þátttakenda, þrátt fyrir að Svíþjóðarslegtið sjái sér ekki fært að koma. Þau fengu annars gott boð á sunnudag og var bent á að flugvélar væru fundnar upp þegar þau færðust undan! Stúfan náði sér aftur á strik þegar hún frétti af því að það væri væntanlegur pakki í pósti.

Ég humma það samt fram af mér eins lengi og ég get að hóa í barnaafmæli. Er á meðan er. Sóleyju fannst nú aldeilis kjörið að fá einhverjar leikskólavinkonur en blessunarlega er afmælishrúga um helgina og í næstu viku, heilar fjórar dömur að fagna the big four, svo ég sagði henni, sem satt er, að vinkonurnar yrðu nú mikið uppteknar í eigin veisluhöldum.

Annars var leshringur í gærkvöld. Fámennt og menn mismikið lesnir, þar á meðal ég. Við áttum að lesa bókina Atburðir við vatn, eftir Kerstin Ekman. Hún er bara svo lítið grípandi að ég hef lítið haft mig áfram. Gerði að auki smá feil, fór nefnilega að lesa Sendiherrann eftir Braga Ólafsson – hina margrómuðu. Sú var nú aldeilis ekki að ná til mín. Bæði gerðist lítið og svo vakti aðalpersónan engan áhuga hjá mér. Þannig að ég gafst upp í miðjum klíðum, eða ákvað öllu heldur að tíma mínum væri betur varið í eitthvað annað. Frekar les ég góðar bækur oft en lélega bók einu sinni. Jæja, en þrátt fyrir að ég væri ekki full-lesin þá urðu umræður afskaplega skemmtilegar og sannast þá hið fornkveðna að bækur þurfa ekki að vera skemmtilegar til þess að það sé hægt að ræða þær. Við lögðumst í alls kyns pælingar um persónur og ekki síst staðhætti, því sagan gerist í smábæ í N-Svíþjóð. Afar áhugavert. Reyndar hafði leshringurinn fórnarkostnað í för með sér. Í skólanum var nefnilega fyrirlestur um Finnland fyrir utanfarana og var gerður mjög góður rómur að. Týpískt, maður er bókaður tvö kvöld í mánuði, að jafnaði og það hittir annað á einmitt þau kvöld!