Draumur á Jónsmessunótt

Þar sem ég var svo séð að taka forskot á sæluna í gærkvöld og horfa á Inför ESC þá hef ég smá stund aflögu núna til að deila með ykkur skemmtilegri leikhúsferð minni í gær. Þannig er að LMA (Leikfélag Menntaskólans) setti upp Draum á Jónsmessunótt – óskiljanlegt í ljósi þess að þetta sama leikfélag setti þetta sama verk upp fyrir nokkrum árum, og þá með undirritaða í einu af burðarhlutverkinu. Vissulega er verkið gott og með mörgum safaríkum hlutverkum en viðbúið að ekki sé hlaupið að því að slá út fyrri uppsetningunni sem var með því flottasta sem sést hafði. Gott og vel, ég ákvað að gefa þessu séns og bauð Elísu sérstaklega með, sem einmitt var á sínum tíma í álíka stóru og bitastæðu hlutverki og ég. Við tókum alla stórfjölskylduna okkar með til að geta leyft þeim að ganga veg minninganna með okkur. Sóley búin að lofa hátíðlega að hún réði vel við að fara í fullorðinsleikhús, ég búin að komast að því að sýningin var bara 70 mínútur og hægt að hafa Mumma í viðbragðsstöðu til að yfirgefa svæðið ef unginn stæði ekki við fögur fyrirheit. Gaman að því að sýningin leitaði mjög á mig síðustu nætur og dreymdi mig iðulega að þetta yrði ömurlegt flopp. Afar Shakespeareish 😉

Kvöldið reyndist síðan vel heppnað. Ég gróf upp handritið og rifjaði upp nokkrar gullvægar setningar (þessi hundur hundurinn minn….) og söng lagið góða (járntunga næturinnar taldi tólf… höfundur þess er víst í Ljótu hálfvitunum núna) og svo fórum við öll. Sýningin var síðan vonum framar og slagaði hátt í fyrri uppsetningu. Var jafnvel að sumu leyti fremri, greinilega meira splæst í búninga (álfarnir til dæmis í akrýldúk – vá hvað Rúmfó hefur breytt miklu) og tónlistin kannski svolítið fágaðri, strengir og svona. En hins vegar hafði leikstjórinn gert nokkrar breytingar sem ekki féllu mér í geð (!), meðal annars fellt út línuna góðu með hundinn, nú og fært mál handverksmannanna til nútímans (kúl…) og bætt inn söngkonu í handverksmannaleikritið. Allar mínar athugasemdir beinast því að leikstjóranum (Guðjóni Karli) en ekki að leiknum. Mér fannst krakkarnir æðislegir, ég átti meira að segja smá í þeim nokkrum og ótrúlega gaman að rifja þetta upp. Strumpan var nokkurn veginn til fyrirmyndar (hvíslaði dálítið mikið en ég held ekki að það hafi truflað nema smá radíus í kringum okkur) og er því komin aðeins lengra í menningaruppeldinu.

PS Mér finnst lögin frá Svíþjóð og Finnlandi ekkert spes en alveg geggjaðir flytjendur. Hlakka þvílíkt til veislunnar í næstu viku.

One reply on “Draumur á Jónsmessunótt”

  1. Ég á nú bágt með að trúa því að búningarnir hafi verið betri núna!! Finnst ekkert jafnast á við pappadiskana sem ég fékk að bera hérna um árið, hehe.
    Bið að heilsa norður 🙂 Bestu kveðjur, Jóna

Comments are closed.