Mánaðarskipt færslusafn fyrir: júní 2007

Ég sé ljósið :D

Þá er loks loks loks allri prófayfirferðinni lokið. Síðustu bjartsýnisnemendurnir í endurtökuprófi í gær með misjöfnum árangri. Nú er bara talið niður í Norðurlandareisuna, í millitíðinni ætla ég reyndar að fagna með júbílöntum (muniði ekki – þetta var einn alstærsti bónusinn við að fara að kenna í MA) og fagna með nýstúdentum, nú og svo að fara í smá Norðurlandsreisu, því vorferð kennara á þriðjudag mun liggja um Tröllaskaga. Síðustu dagar hafa verið unaðslegir, það er alveg yndislegt að labba út úr skólanum seinni partinn og vita að EKKERT vinnutengt bíður heima 🙂 . Enda hef ég hreinsað beðin (helv. Spánarkerfillinn) og Mummi farið á skúrþakið og lagt þakefnið að mestu, það hefur þá ekki tekið nema tæp þrjú ár.

Að því ógleymdu að ég fór að góðum ráðum og fór bæði í nudd og fótsnyrtingu á þriðjudaginn. Það var hreinn unaður og ég kom alveg ofdekruð út. Eins og ég sá hins vegar fyrir þá varð dóttir mín ansi hreint öfundsjúk þegar hún sá að ég var naglalökkuð á fótunum. Það var með semingi að hún sættist á að vera eins og pabbi sinn að þessu leytinu og tilkynnti öllum í leikskólanum að ég væri naglalökkuð á tánum en hún og pabbi væru hvorugt með naglalakk.

Andað léttar

Já, phew, nú er ég loks búin með 1.bekk, nema kannski einhverja fíníseríngu áður en einkunnirnar fara inn á morgun. Útkoman nokkuð góð, ótrúlegasta fólk að ná. Það hefur gengið lygilega vel að loka á góða veðrið, þegar maður situr undir Svörtuloftum með dregið fyrir þá bólar hvorki á sól né sælu. Ég er að gæla við að heilsa upp á sólina um helgina, þá verður vonandi 2.bekkur líka langt kominn.

Verð að deila með ykkur smá Prinsa-sögu. Haldiði ekki að hann hafi kallað á mig þegar ég var á leið í vinnuna í gærmorgun. Ég snéri mér við og þá kemur kallinn á heljarspretti eftir Möðruvallastræti og svei mér, af því að ég er nú nokkurs konar „Cat whisperer“ þá var hann að biðja mig um að hinkra. Ég gerði það auðvitað en hins vegar virðist Prinsi ekki skilja minn framburð á kattamáli, hann fór að minnsta kosti ekki heim eins og ég sagði honum. Og það endaði auðvitað með að ég þurfti að loka á snúðinn á honum þegar ég var komin í vinnuna. Hefði alveg verið til í að leyfa honum að vera með en átti ekki von á almennri gleði, hef svo sem ekki heyrt um „kettina í vinnuna-daginn“. Hann endurtók leikinn í dag þegar við mæðgur og Ingunn Erla fórum í Lystigarðinn og síðan í skólann på toilet, kemur þá ekki garpur hlaupandi (reyndar úr Lystigarðinum) og var alsæll að hitta okkur. Eitthvað er Prins farinn að rækta Lystigarðinn sinn…

Panik

Hafi ég verið á barmi taugaáfalls fram að þessu, þá var það ekkert samanborið við stresskastið sem ég fékk áðan. Týndi bunka af prófum úr einum bekknum! Var farin að sjá  fyrir mér skriftarstundina hjá skólameistara, smánina og brottrekstur úr starfi.  Blessunarlega þá fannst hann eftir nákvæma leit. Ég held að ég fari að stinga upp á sjálfsala með róandi hérna á vinnustofunni. Segja svo að það sé ekki æsispennandi starf að vera kennari.

Hægt og bítandi

Það er ástæða fyrir fjarveru minni á blogginu. Ég er á barmi taugaáfalls að fara yfir próf. Þó stefni ég í rétta átt. Nú á ég til að mynda bara eftir að fara yfir 115 loggbækur fyrir 1.bekk. Það er enginn skemmtilestur, skal ég segja ykkur. Síðast dreif ég þær af fyrst (og tók þrjá heila vinnudaga) en núna hef ég hummað þær fram af mér. Þá á ég bara eftir smotterí, skriflegt próf, hlustunarpróf og loggbækur í 2. bekk en það eru nú bara 20 stk. Svo sjáum við til hversu mörgum hefur tekist að fella sig og reyna að klóra í bakkann í endurtökuprófum. Anyways, það er ekki sumarfrí í bráð. Og ég verð húsmóðir alein frá þriðjudagskveldi fram á laugardag. Mummi stingur mig af til fyrirheitna landsins sem þýðir að ég þarf að elda marga daga í röð! Spæld egg í öll mál handa Strumpu, nammi handa mér, málinu reddað.

Ég á erfitt með að gera upp við mig hvað af eftirtöldu ég á að gera fyrir sjálfa mig að törninni lokinni; nudd eða fótsnyrting – kannski bara hvoru tveggja?