Já, phew, nú er ég loks búin með 1.bekk, nema kannski einhverja fíníseríngu áður en einkunnirnar fara inn á morgun. Útkoman nokkuð góð, ótrúlegasta fólk að ná. Það hefur gengið lygilega vel að loka á góða veðrið, þegar maður situr undir Svörtuloftum með dregið fyrir þá bólar hvorki á sól né sælu. Ég er að gæla við að heilsa upp á sólina um helgina, þá verður vonandi 2.bekkur líka langt kominn.
Verð að deila með ykkur smá Prinsa-sögu. Haldiði ekki að hann hafi kallað á mig þegar ég var á leið í vinnuna í gærmorgun. Ég snéri mér við og þá kemur kallinn á heljarspretti eftir Möðruvallastræti og svei mér, af því að ég er nú nokkurs konar „Cat whisperer“ þá var hann að biðja mig um að hinkra. Ég gerði það auðvitað en hins vegar virðist Prinsi ekki skilja minn framburð á kattamáli, hann fór að minnsta kosti ekki heim eins og ég sagði honum. Og það endaði auðvitað með að ég þurfti að loka á snúðinn á honum þegar ég var komin í vinnuna. Hefði alveg verið til í að leyfa honum að vera með en átti ekki von á almennri gleði, hef svo sem ekki heyrt um „kettina í vinnuna-daginn“. Hann endurtók leikinn í dag þegar við mæðgur og Ingunn Erla fórum í Lystigarðinn og síðan í skólann på toilet, kemur þá ekki garpur hlaupandi (reyndar úr Lystigarðinum) og var alsæll að hitta okkur. Eitthvað er Prins farinn að rækta Lystigarðinn sinn…