Fram og tilbaka

Ég ætla að bæta upp fyrir skortinn á fríbloggi og blogga um helgina sem leið, en sú verður að teljast félagsmálahelgi sumarsins. Hún hófst á fertugsafmæli hjónanna Hönnu og Ármanns á föstudagskvöld. Veislan var haldin í Gamla Lundi og telst nú líklega fámenn miðað við annað sem gengur og gerist og telst það vel sloppið með stóra fjölskyldu í allar áttir. Það var mikið stuð og gaman, aðallega vegna þess að skemmtiatriðin voru svo fjölskyldumiðuð, Helgi spilaði á hljómborð, og ýmsir sungu, þeir bræður Ármann, Ingimar og Svavar tóku lagið með pabba gamla og Ingimar söng með sinni konu, henni Miriam, Ásdís tók Leoncie eins og henni einni er lagið, Hanna tók frumsamda lagið um ljótu rottuna við eigin undirleik og síðla kvölds líka heyrnleysingjabrandarann. Þetta var á köflum svo lókal húmor að það var eins og maður væri heima í litlu partýi. Og sem uppbót fyrir fiskisúpuáDalvíkleysið fengum við fiskisúpu að hætti Ármanns sem myndi sóma sér vel á Dalvík.  Við hjónin vorum við litla skál og annað okkar minna en hitt en það kom fyrst og fremst til vegna þess að þetta var bara fyrsta vers.

Að morgni laugardags flugum við til Reykjavíkur. Við vorum nefnilega boðin í brúðkaupsveislu þeirra Palla og Rolands á laugardagskvöld og þar sem við flugum svokallað punktaflug þá stóð einungis til boða að fljúga með fyrstu vél. Við áttum slæptan dag í borginni, nenntum ekki einu sinni á Gay Pride, þrátt fyrir að langa til að sjá skrúðgönguna. Við höfum ekki verið viðstödd hana síðan fyrsta árið (eða fyrstu tvö, hvernig er þetta aftur?) enda hefur Fiskidagurinn lokkað síðustu ár. Veislan þeirra var haldin heima hjá foreldrum Palla í Kópavoginum og var tekin með trompi. Dagurinn búinn að vera svo fallegur, veðrið var yndislegt fram á kvöld svo það var opnað út í garð og þar gátum við verið lengi vel. Við hittum nokkra fyrrverandi x-ara sem er alltaf gaman og síðast en ekki síst náði ég góðu ættfræðispjalli við frú Emilíu, ömmu hans Palla, en hún er frænka mín, amma hennar og langafi Gunnlaugur voru systkin. Ég hef ekki hitt hana áður en heyrt sögur og hún stóð sannarlega undir þeim. Ótrúlega hress og skemmtileg og það var alveg frábært að spjalla við hana. Hún var enn spræk þegar við fórum heim um tvö leytið 🙂

Í gær var síðan komið að því að skíra Kristleif Heiðar, hér fyrir norðan þannig að eftir að líta í morgunkaffi til Adda (hressan eftir kvöldið) og Lindu, flugum við aftur heim. Skírnin fór fram á Munkaþverá, minn góði Blandon skírði og fórst það vel úr hendi eins og hans er von og vísa. Síðan var veisla í Holtateig þar sem við átum á okkur gat. Vorum eins og druslur þegar við komum heim, þreytt eftir mikla helgi. Erum síðan að verða ein, ekki bara í kotinu heldur í bænum, Helgi, Ásdís og Kristleifur búin að vera hér í viku og eru farin, Siggi og Sigrún farin, Kittý og Siggi að fara til Svíþjóðar í kvöld, Ármann og Hanna farin austur, tengdapabbi að fara suður. Að auki er Kristín að byrja í vinnu á morgun, mér finnst eins og ég sé Palli var einn í heiminum. Þá verður víst ekki umflúið að fara að sinna heimilisverkum …

Join the Conversation

  1. Avatar
  2. Avatar

2 Comments

Leave a comment

Netfang þitt verður ekki birt. Nauðsynlegir reitir eru merktir *