Það er óhætt að segja að það séu alltaf einhver ótíðindi í vigtun og mælingu. Góðu tíðindi vikunnar eru þau að ég verð ekki ár að losa mig við 5% fitu en vondu tíðindin eru þau að vigtin haggaðist lítið. Þetta er þó allt í rétta átt og oftast er ég býsna samviskusöm að borða hollt. Ýmislegt verður þó til þess að gera manni lífið erfiðara, í afmæli Evu í gær var til dæmis tvöföld súkkulaðikaka, bæði með dökku og hvítu súkkulaði og það var sorglegt að geta bara fengið sér eina nös af henni. Í dag var soðiðbrauð með laxi og randalína í skólanum í morgunkaffinu, sem ég slaufaði reyndar alveg og nagaði dýrindis rófu í staðinn og þetta var kórónað í hádeginu með lambakjöti með feitu kartöflusalati og feitri sósu og ís í eftirmat. Þegar þriðjudagar og miðvikudagar eru svona þá er ekki von á góðu.
Ég er sem sagt byrjuð á fullu í vinnunni, vægast sagt á fullu, það er lítil aðlögun að vera að koma úr sumarfríi. Jú vissulega höfum við ekki byrjað fyrr en 9 en ég þarf líka að stökkva út klukkan fjögur og rúmlega það til að sækja Strumpu. Að því ógleymdu að það er auðvitað vinna á laugardag og sunnudag líka. Og sjálfskaparvítið mitt, fjarkennslan, á kvöldin. Það er sælt að lifa.
Við hjónin hefjum fiðlunám í næstu viku. Ég held að ég sé ekki efnileg. Við fengum fiðlu-ungann með okkur heim eftir fund á mánudaginn. Hann er oggolítill, eiginlega þannig að maður segir bara gútsígú við hann. Við hófumst strax handa við æfingar og þetta var óttalegt pín sem kom þegar ég lék en Mummi sýndi strax efnistakta ENDA hefur hann lært á píanó. Og Strumpa getur ekki beðið, hún var ekkert smá skotin í fiðlunni þegar hún skoðaði hana í gær. Þetta verður athyglisvert.