Í gær var komið að fyrsta fiðlutímanum okkar hjóna. Ekki var okkur ofboðið með lærdómi, við lærðum að standa rétt, hneigja okkur (afar nauðsynlegt) og halda á fiðlunni. Bæði í hvíldarstöðu og í spilastöðu. Nú og að æfa bogagripið – án bogans. Það fer ekkert á milli mála að Mummi er meira efni í þetta allt en ég. Hann verður eflaust farinn að spila lög áður en ég veit af. Í dag er síðan hóptími, þá má Sóley koma með (til nöfnu sinnar Láru Sóleyjar) og fylgjast með hvernig tímarnir fara fram.
En talandi um Mumma. Hann er auðvitað afmælisbarn dagsins. Árinu yngri en hann heldur, hann er eitthvað að smitast af aldri gömlu eiginkonunnar sinnar. Við mæðgur vöktum hann í morgun með söng, Sóley uppástóð það í gærkvöld að við skyldum syngja ensku útgáfuna. Söng hana fyrir mig, reyndar allar fjórar línur eins.