Frekar takmörkuð skrif þessa dagana. Nú er ekkert elsku amma neitt, styttist í borgarferðina góðu og ég þarf að vinna upp allar dönsku syndirnar áður en ég fer. Til dæmis er miðannarmat gefið í fjarveru minni, svo því þarf ég að ljúka fyrir brottför. Og til að geta gefið miðannarmat þarf að hafa eitthvað í höndunum. Helgin og kvöldin hafa því farið í mis-skemmtilegar yfirferðir. Sem betur fer er „haustfrí“ á morgun og hinn svo ég ætti að ná að vinna úr bunkunum. Allt þetta legg ég með glöðu geði á mig vitandi það að ég er að fara til fyrirheitna landsins. Ég næ einnig nokkurri menningu fyrir ferð, annars vegar leikhúsferð að sjá Ökutíma og hins vegar minni ástkæru Nýdönsk á þriðjudagskvöld. Svo það er heilmargt mér til hressingar og upplyftingar þessa dagana.
Tónlistarfréttir af Strumpunni eru þær helstar að debut hennar var vonum framar. Náði að yfirstíga feimnina og spilaði eins og sprenglærð á þríhorn. Maður fékk næstum tár í augun yfir hvað hún hélt fallega taktinum. Fiðlan er líka öll að koma, hún er nokkurn veginn farin að æfa sama prógramm og við 🙂 , spilar á E og A – ég er komin með kerfi á strengina, fyrst er það Eyþór, síðan Adda amma, þá Dúddi frændi og loks Gylfi afi….