ég er nýdönsk

Það þarf ekkert að orðlengja það að ég var alsæl eftir tónleikana í fyrrakvöld. Ég er auðvitað búin að vera hluti af hljómsveitinni í 20 ár svo þetta var auðvitað líka afmæli fyrir mig. Og omg ég varð 16 á ný. Hringdi þrisvar til Svíþjóðar til að leyfa systur að vera með, hún er líka nýdönsk. En þeir voru alla vega í fantaformi. Efast eiginlega um að þeir hafi verið betri fyrir sunnan. Og stemmingin í salnum alveg frábær. Ég á eftir að lifa lengi á þessu, verst að núna langar mig á ball með þeim. Ekki spillti svo fyrir að ég var samferða Óla Hólm og Ingva vara-bassaleikara suður daginn eftir og rétt náði að hemja mig að ráðast að þeim…

En nú er ég í DK og vá hvað Köben er æðisleg, ég geng um í sæluvímu. Námskeiðið lofar líka góðu. Við byrjuðum daginn á því að horfa á mynd, sú heitir Supervoksen og er alveg últrafín unglingamynd. Síðan voru fyrirlestrar og eftir það tæplega tveggja tíma pása. Ég þaut upp á Köbmagergade, fór fyrst í HM kids og keypti slatta á Sóleyju, til dæmis mjög efnilegan jólaskokk, en síðan fór ég í HM women og keypti smá á mig. Dragt, pils, nærföt, sokka. Sem sagt, bara þetta nauðsynlega. Svo fór ég í vínbúðina okkar Mumma, en mér gekk reyndar illa að finna hana því hún er komin með nýtt nafn. En þar fann ég sumsé 15 ára Laphroaig, svo hann fengi örugglega eitthvað fyrir sinn snúð. Endaði svo í bókabúð – hafði reyndar byrjað daginn þannig líka, keypti bing af bókum, en í þessari ferð var það slúðurbók um Kongefamilien. Við borðuðum svo úti, á veitingastað á Det danske filminstitut. Hér er í augnablikinu rigning en veðrið í morgun var mjög indælt. Á morgun förum við eldsnemma af stað, út á Holmen (þar sem Óperan er – við förum reyndar í Den danske filmskole) og ég hlakka þvílíkt til. Næ líklega smá búðarferð eftir það ef ég er heppin en ég er reyndar frekar sátt við afraksturinn í dag. Kemur sér vel að vera þrautþjálfaður shopper 🙂 .