Ég lufsaðist í tíma í morgun – þrátt fyrir háværar raddir púkans sem var óvenju frekur í morgun, vitandi það að ég yrði ekki sótt. Fór að sjálfsögðu á vigtina til að fá morgunmælinguna og viti menn, það munaði hálfu kílói. Svo ég hef, eftir allt saman, lagt af heil 600 grömm í nóvember. Ég sé að það er eina vitið að fara í mælingu klukkan 6 að morgni. Maður er hærri og léttari, mikið asskolli hlýtur maður að líta vel út….
Annars er mikill sjúklingur á heimilinu núna. Prins Valíant nældi sér í slagsmál hér aðfaranótt þriðjudags og hefur ekki borið barr sitt síðan. Er alveg ómögulegur í öðrum framfætinum og er því þrífættur þessa dagana. Læðist ekki um húsið heldur trampar um á þremur fótum svo vel heyrist. Það er nú frekar dekrað meira við hann ef eitthvað er, svo sennilega tekur hann þetta göngulag alveg upp.