Enginn saknar mín

Jæja, það hafa ekki dunið á mér skammir í kommentakerfinu fyrir bloggleysið…. ég er óbærilega sár.  Mér hefur annars lagið dottið eitthvað í hug að skrifa, nú til dæmis ætlaði ég auðvitað að dreifa brosköllum yfir endurkomu Daníels í Nýdönsk. Get ekki annað en kæst yfir því, þó svo ég hafi kunnað vel við þá án hans og hef áhyggjur af Ingva sem verður þá kannski sisona bara fleygt úr bandinu. Sá annars Daníel á árshátíð MA. Þar spilaði nefnilega GusGus. Þeir hefðu betur fengið Nýdönsk, ekki vakti GusGus að minnsta kosti mikla lukku og kennurunum fleygt frá borðunum sínum að ástæðulausu. Já heimur versnandi fer. Við fengum ekki fyrst að borða og urðum að láta okkur það lynda að fórna borðunum okkar undir dansgólf. Ég var svo súr að ég fór heim. Enda búin að sjá Daníel og aldrei hef ég verið hrifin af þessu verkefni hans. Eitthvað voru menn að gera því skóna að hljómsveitin hefði meira og minna verið á einhverju. Ég er svo einföld sál að ég hélt bara að Daníel væri svona skrýtinn…

Annars er ég búin að gera laufabrauð í tvígang. Fyrst upp á gamla móðinn þar sem ég stóð og breiddi út. Síðan með aðkeyptar, mislukkaðar kökur, þar sem ég skar út. Hvoru tveggja ljómandi fínt. Búin að hefja jólaátið með formlegum hætti, fór út að borða með LC á föstudag og í jólahlaðborð með MA á laugardag. Borðaði vel og mikið yfir mig.

Er enn óákveðin hvort ég á að baka Sörur. Klúbburinn minn virðist vera dáinn og þá er það spurning hvort hjónabandið þoli álagið sem fylgir því að eiga Sörur á heimilinu…. og svo veit maður alveg hvert þær fara, ekki bara upp í munn og ofan í maga, það er alveg ljóst. Leikfimin búin og ekkert hlaupafæri. Það myndi bara enda með grenjum.

Annars dönsuðum við hjón í gærkvöld. Kellurnar voru fengnar á RT fund og svo var danskennsla. Alveg frábærlega gaman og við hjón smellum saman sem danspar. Má ekki á milli sjá hvort trampar betur á tær hins. Allir upprifnir og talað um að skella sér á námskeið eftir áramót. Hver veit… það væri gaman.

Og í kvöld er mikil menning. Danskur kvikmyndahittingur heima hjá Hildu, fyrrverandi vinnufélaga úr Síðuskóla. Henni áskotnaðist hvorki meira né minna en „Kunsten at græde i kor“ – framlag Dana til Óskarsverðlaunanna, sem komst reyndar ekki áfram. En á sem sagt að vera mikið stykki. Veit ekki hvað hún þurfti að gera til að fá hana, ég vissi amk ekki að hún væri komin út. Missi reyndar af bíókvöldi þýskunnar í staðinn en þegar valið stendur á milli dönsku og þýsku, þá er ójafnt á metunum.