Það tókst. Um helgina bökuðum við hjónin sörurnar sívinsælu. Allt lagt undir, hvorki meira né minna en 200 kökur gerðar. Fengum fyrsta fólk í smökkun strax að kvöldi fyrsta sörudags og var gerður góður rómur að útkomunni. Svo nú er uppskeruát – og uppskeruhátíð á hverjum degi. Enginn dagur án Söru…
Jólaundirbúningur stendur sem hæst. Búið að skrifa 3 jólakort, því miður hefur enn bara tekist að senda eitt þeirra enda þurfti það að fara lengst. Hin eru erfiðari af því að ég fékk svo frábæra hugmynd að senda jólapistil með og skreytti með dýrindis myndum úr Danmerkurferðinni en það sem sagt gengur hægt og illa að prenta út. Ég ætlaði að misnota vinnuna en prentarinn er húsbóndahollur og sá við mér svo hér hefur ekkert gerst. Mummi ætlar að reyna að redda mér en sennilega klikkar hann bara sjálfur því hann mun örugglega ekki bíða bætur á fegurðarskyninu við að sjá myndirnar útprentaðar… En ég er sem sagt farin að huga að öllu. Spáið í hvað er ótrúlegt hvað ég skrifa ágæt jólakort miðað við að það er allt á síðustu stundu. Talandi um að fleygja bara Hafdís, Mummi og Sóley Anna neðst í kortið og láta það duga!
Næsta krísa er líka hvort ég eigi að fara í jólaköttinn eður ei. Er varla í stuði til að leita mér að fötum. Kannski kemur ofurstuð, man vet jo inte… ef ekki þá er bara að grípa eitthvað út skápnum. Þar leynist hvort eð er ýmislegt.
Við fórum okkar árlegu jólaferð (þetta er jú annað árið í röð sem við förum) í Jólahúsið í gær. Það var að venju góð ferð. Þó rifjuðum við upp stemminguna í fyrra þegar við ókum að og það var eins og að lenda inn í bíómynd. Jólasveinninn fyrir utan að sópa nýfallna mjöll. Í gær var bara rok og rigning. Það fer að vísu að verða jólalegra en hitt… Ég keypti að vanda nokkrar karamellur en einnig afar smekklegan poka fyrir jólakort. Nú er það ekki happa-glappa hvar ég set kortin og hvort þau finnast aftur 🙂 . Pokinn er kominn upp á vegg og sómir sér vel. Alltaf gott að gera góðar ferðir.